Listaverkið sem er ekki listaverkið á sýningunni

Samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti 16 stendur nú yfir á Djúpavogi. Þar má finna verk eftir listamenn frá Íslandi, Kína, Hollandi og fleiri löndum, en þó líka verk sem er smíðað sem listaverk en er nytjahlutur á sýningunni.

Um er að ræða lítinn bekk sem Þór Vigfússon, listamaður á Djúpavogi, hefur smíðað. Bekkurinn var hluti af listsýningu sem Þór hélt í Kópavogi í vetur en á Rúllandi snjóbolta er hann hins vegar ekki eitt hinna eiginlegu listaverka, heldur til að fólk geti sest niður og virt fyrir sér verkin.

Þór lýsir bekknum sem „samtalsbekk“ þar sem tveir einstaklingar geta setið í honum. Þeir sitja þó ekki hlið við hlið, heldur á hlið hvor við annan og geta þannig átt samræður augliti til auglitis um listsýninguna eða daginn og veginn.

Bekkurinn er einnig gerður þannig að hvolfa má honum við þannig hann haldi notagildi sínu. Hann skiptir hins vegar um lit, en Þór stillir andstæðum litum, svo sem grænt á móti rauðu, upp í bekknum.

Á þriðja tug listamanna eiga verk á Rúllandi snjóbolta sem haldinn er í samtímalistasafninu Ars Longa á Djúpavogi. Af austfirskum listamönnum sem taka þátt í snjóboltanum má efna Sigurð Guðmundsson og Heiðdísi Hólm Guðmundsdóttur. Sýningin er opin alla daga, nema mánudaga, fram til 25. ágúst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.