„Maður skrifar um það sem maður þekkir“
Benný Sif Ísleifsdóttir sendir í ár frá sér sína fimmtu skáldsögu, Speglahúsið. Sagan gerist í Mjóafirði þar sem Benný Sif á orðið hús og dvelur reglulega. Hún hefur vakið athygli fyrir það hvernig hún fjallar um veruleika íslenskra alþýðukvenna á ýmsum tímum og það er líka inntakið í Speglahúsinu.„Við komum hérna um mánaðamótin mars-apríl árið 2022. Við vorum búin að gera tilboð í þetta hús með fyrirvara um að fá að skoða það. Við búum annars í Kópavogi, hátt upp á heiði en finnst langt í sjóinn þaðan og langaði til að eiga afdrep nær honum.
Við heilluðumst alveg þegar við sigldum inn fjörðinn. Þetta var yndislegur vetrardagur, allt hvítt ofan í fjöru, himinblátt og fallegt. Við vorum því orðin sannfærð um að hugmyndin væri frábær strax þegar við sigldum inn fjörðinn og höfum komið hingað reglulega síðan.
Við eigum tengingar hingað því tengdafaðir minn er alinn hér upp og foreldrar hans eru jarðsett hér í kirkjugarðinum. Við melduðum okkur í bátinn áður en við komum hingað fyrst og það vissu allir Mjófirðingar af því að við værum að koma og hverra manna maðurinn minn væri,“ segir Benný Sif.
„Tíminn hér er afstæður, hann líður bæði hægar og hraðar. Hér ríkir ákveðið tímaleysi sem maður kann að meta. Mjóifjörður er líka svo margháttaður eftir því hvernig veðrið er, sjórinn er aldrei eins. Þannig verður hann að mörgum stöðum í senn,“ bætir hún við um Mjóafjörð.
Vantaði fyrirmyndir að rithöfundum á Eskifirði
Bæði Benný og maður hennar, Óskar Garðarsson, eru uppaldir Eskfirðingar og bjuggu þar lengi vel. Hún var þó flutt suður er hún lauk námi í þjóðfræði og fór síðan að velta fyrir sér næstu skrefum. Hún kveðst hafa íhugað sýninga- eða safnastarf en það gekk ekki eftir.
„Maðurinn minn hnippti í mig með það hvort ég vildi ekki láta reyna á þetta sem ég hafði alltaf verið með í huga, að skrifa. Þetta er eitthvað sem kemur í hugann á manni þegar maður fer að hugsa meira meðvitað sem fullorðinn. Ég las mikið sem barn, stundaði bókasafnið og þurfti snemma að fara að lesa ástarsögur því ég var búin með allt hitt.
En það voru engar fyrirmyndir. Ég vissi varla hvað bókaforlag var, né hafði komið inn í prentsmiðju eða hitt rithöfund. Sem barn og unglingur hef ég talið að það væru bara einhverjir útvaldir einstaklingar, helst á höfuðborgarsvæðinu sem skrifuðu bækur.
Þrautaganga að fá fyrstu skáldsöguna gefna út
Fyrstu bækur Bennýjar Sifjar komu út árið 2018. Annars vegar var það skáldsagan Gríma, en hún hafði fengið nýræktarstyrk rithöfunda fyrir handritið að henni, og síðan barnabókin Jólasveinarannsóknin.
„Í rauninni settist ég bara niður flötum beinum í ársbyrjun 2016 í legubekk í stofunni heima með rauða tölvu í fanginu og skrifaði Grímu. Ég kláraði bókina um haustið og þá byrjaði þrautagangan að fá eitthvert forlag til að gefa hana út, í raun bara fá einhvern til þess að lesa hana.
Maður lendir bara neðst í bunka á einhverju skrifborði og getur ekkert gert því maður er beðinn um að fara ekki með handritið neitt annað. Forlagið ætlar að taka þrjá mánuði í að skoða handritið en þegar þeir mánuðir eru liðnir og maður fer að spyrjast fyrir um stöðuna er svarið að það sé fullur hugur á að skoða málið, en síðan er maður eiginlega dreginn áfram á asnaeyrunum. Það er líka viss vogun fyrir forlag að veðja á nýjan höfund, sérstaklega ef hann er ekki þekktur fyrir neitt annað.“
Það sem bjargaði Benný var að senda handritið inn í samkeppni þar sem það fékk verðlaun. Bókaforlag sem var að skoða handritið sló þá til og gaf það út. Í millitíðinni fæddist hugmyndin að barnabókinni.
„þegar ég var alveg að gefast upp, hitti ég vinkonur mínar úr þjóðfræðinni og vældi í þeim um að þetta gengi ekki neitt hjá mér. En ég sagði þeim líka sögur af syni mínum og vinum hans sem voru að njósna um jólasveinana. Þeim fannst sú frásögn svo fyndin að þær spurðu mig samtímis af hverju ég skrifaði ekki bók um þessar njósnir. Sú bók kom út hjá Bókabeitunni sama haustið þannig að ég átti bækur hjá tveimur forlögum þetta fyrsta útgáfuár. Eftir það var ég ákveðin í að leggja þetta fyrir mig.“
Tilnefnd til Evrópuverðlauna
Síðan hefur Benný Sif sent frá sér nýja bók á hverju ári. Árin 2019 og 2023 voru það barnabækur, fyrst Álfarannsóknin og síðan Einstakt jólatré en árin 2020-2022 skáldsögurnar Hansdætur, Djúpið og Gratíana. Hansdætur og Gratíana er tvíleikur sem gerist vestur á fjörðum rétt eins og Djúpið. Fyrir Hansdætur fékk Benný Sif tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins.Söguefnið er reynsluheimur kvenna.
„Ég á sjálf þrjár systur og einn bróður en var lengst af heima með mömmu og yngstu systur minni. Tengdamóðir mín var líka sjómannskona og á þrjár dætur og tvo syni. Ég á síðan fjórar dætur sjálf og einn son og hef verið mikið heimavinnandi. Það hafa alltaf verið konur allt í kringum mig og einhvern veginn skrifar maður um það sem maður þekkir, kvenfólk. Ég held að það sé mest vit í því. Ég held það verði aldrei sannfærandi að skrifa um það sem maður þekkir ekki.“
Austfirska speglahúsið flutt í Mjóafjörð
Nýjasta skáldsagan kom út í lok október og kallast Speglahúsið. Hún gerist austur í Mjóafirði, annars vegar árið 1953 og hins vegar í nútímanum. Þar segir frá Rósu, hárgreiðslukonu um fimmtugt sem býr í Reykjavík en ákveður að hætta í því starfi og flytja austur í Mjóafjörð.
„Sagan byggir á tvennu. Annars vegar Mjóafirði sjálfum sem heillandi sögusviði og hins vegar sögu sem mamma sagði mér þegar við vorum að sækja pabba á Fáskrúðsfjörð, þar sem hann var skipstjóri. Í gamla bænum á Sómastöðum í Reyðarfirði hafði kona legið rúmföst og fyrir ofan hana verið hengdur upp spegill þannig að hún gæti séð það sem var að gerast fyrir utan gluggann hjá henni. Í minningunni hugsaði ég hvað það hafði verið fallegt að gera þetta fyrir hana en um leið fannst mér sorglegt hve fáir keyrðu fram hjá. Á þessum tíma voru það bara stöku bílar og mér þótti þetta ósköp dapurlegt.
Nú kemur í ljós hvort einhverjir Austfirðingar þekki söguna öðruvísi en svona er mín minning. Eftir að bókin kom út hef ég fregnað frá sögufróðum Austfirðingum að það hafi verið karlmaður en ekki kona sem lá innan við gluggann á Sómastöðum, Sveinbjörn Pálsson Beck (1905-1949). En ég hef alltaf átt minninguna hinsegin og seinna meir hugsað um hvernig ég gæti skrifað um konuna.
Ég tilfæri hana í bókinni upp á unga konu, Lísu, sem lamast í slysi og kemur til tengdaforeldra sinna í Mjóafirði með tvö kornabörn með sér. Hjá þeim liggur hún á eldhúsbedda undir glugga vestan megin í húsinu og fær fyrsta spegilinn til að sjá út. Það er auglýst eftir ráðskonu til að annast hana og Katrín sem býr við heimilisofbeldi flýr austur með börnin sín tvö og ræður sig til starfa.
Tengingin á milli baksögunnar og nútímasögunnar er sú að sonur ráðskonunnar, sem er peyi árið 1953, er faðir Rósu. Hún kynnist honum seint og um síðir og á með honum stuttan tíma áður en hann deyr. Þá hefur hann sagt henni frá því að æskuheimili hans í Mjóafirði sé til sölu og á það tækifæri stekkur Rósa af ástæðum sem smám saman sýna sig.
Jafnt og þétt var bætt við speglum, bæði inni í húsinu og fyrir utan það svo Lísa gæti séð heiminn betur frá eldhúsbeddanum. Sjötíu árum seinna tekur Rósa sér svo stöðu innan um alla speglana. Hún lætur byggja við húsið og rekur þar kaffihús og bakar í gamla eldhúsinu, innan um alla speglana, á meðan dóttir hennar uppvartar. Rósa býður síðan gestunum að leggjast á bekkinn hennar Lísu til að upplifa veröld hennar. Þannig er þetta saga þessara þriggja kvenna sem tengjast í gegnum tímann, eldhúsið og speglana.“
Benný Sif og Óskar gerðu tilraunir með að stilla upp speglum við hús þeirra á Mjóafirði til að sannreyna að þeir virkuðu eins og lýst er í sögunni. „Ég lét Óskar hlaupa hérna í kring með spegla – þannig að ég veit að þetta virkar.“
Lengri útgáfa birtist í jólablaði Austurgluggans sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.