Orkumálinn 2024

Malarvinnslan á barmi gjaldþrots

Stjórnendur Malarvinnslunnar reyna nú allt sem hægt er til að forða fyrirtækinu frá gjaldþroti. Unnið er að því að selja einstakar deildir út úr fyrirtækinu og er þar um að ræða klæðningu, malbik, steypustöð, vélaverkstæði, einingaverksmiðju og útideild, sem snýr einkum að viðbyggingu Grunnskólans á Egilsstöðum. Hún er jafnframt stærsta einstaka verkefni Malarvinnslunnar nú. Starfsfólk fær greidd laun fyrir október en alls óvíst er um framhaldið.

 

 

 

 

Í morgun var haldinn fundur með starfsfólki Malarvinnslunnar, þar sem því var sagt að fyrirtækið stæði mjög illa og væri allt að því komið í þrot. Unnt væri að greiða laun fyrir síðasta mánuð, en ekki hægt að ábyrgjast laun starfsfólks næstu mánuði því bankar neituðu fyrirtækinu um fyrirgreiðslu.

Malarvinnslan reynir nú að selja öðrum verktakafyrirtækjum á Fljótsdalshéraði einstaka þætti úr starfsemi sinni, þ.e. deildir í klæðningu, malbiki, steypustöð, einingaverksmiðju, vélaverkstæði og verk við nýbyggingu Grunnskólans á Egilsstöðum. Viðræður eru í gangi um sölu þessara þátta og einhver tilboð hafa borist. Fyrir liggur að stór aðili utan svæðisins vill kaupa stjórnunarsamning um byggingu grunnskólans.

Ragnheiður Kristiansen starfsmannastjóri Malarvinnslunnar sagði í samtali við Austurgluggann að kauptilboð liggi fyrir. Hún vill ekki staðfesta að tilboð sem borist hafa séu öll frá öðrum verktakafyrirtækjum á Fljótsdalshéraði. ,,Við erum ekki komin í gjaldþrot og laun voru greidd út núna og allir fá launin sín. Við erum að vinna hörðum höndum að því að tryggja að sem stærstur hlut af þessum störfum verði rekinn áfram og haldið í rekstri. Við reynum að sjá til þess að sem flestir haldi störfunum sínum."

Tæplega sextíu manns starfa nú hjá fyrirtækinu eftir uppsagnir í síðustu viku. Í byggingardeild eru rúmir fjörtíu og um 15 starfsmenn í malbiki og klæðningu og vonast Malarvinnslan til þess að þeir aðilar sem kaupi deildirnar, ef um semst, taki yfir samninga starfsfólksins. Fimm starfa á skrifstofu og missa þeir væntanlega vinnuna nema kaupendur deilda taki þá til sín.

Ragnheiður segist vonast til að gengið verði frá sölu deildanna fyrir helgi. Stærsta verkefni fyrirtækisins sé bygging skólans og verði því verki haldið áfram fylgi því verkefni fyrir steypustöð og einingaverksmiðju Malarvinnslunnar.

Austurglugginn hefur heimildir fyrir því að takist ekki að selja deildirnar út úr fyrirtækinu verði það hugsanlega tekið til gjaldþrotaskipta á næstu dögum.

Eigandi Malarvinnslunnar er Kaupfélag Héraðsbúa, sem keypti fyrirtækið í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.