Marína Ósk og Ragnar Ólafsson á ferð um Austfirði

Söngvaskáldin Marína Ósk og Ragnar Ólafsson verða næstu daga á Austfjörðum en þau eru á tónleikaferð um landið. Þau koma úr ólíkum áttum, Marína Ósk úr djassi en Ragnar úr rokki.

Í tilkynningu segir að þau muni flytja tónlist hvors annars og sameinast í heimi frásagna og einlægni. Þau kynntust í Húsi Máls og menningar og spila þar flest kvöld vikunnar fyrir fjölda áheyrenda. Þau sendu nýverið frá sér lagið „Er kólna fer.“

Marína Ósk hefur þrætt jazzhátíðir í Evrópu og eignast dygga hlustendur um allan heim og er með mikla mánaðarlega hlustun á Spotify. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir tónverk ársins í djassflokki og er orðin leiðandi afl á íslensku djasssenunni.

Ragnar hefur gefið út um 30 plötur á ferlinum og er þekktastur sem stofnmeðlimur hljómsveitarinnar Árstíða, sem hefur ferðast um meira en 30 lönd í þremur heimsálfum og urðu heimsfrægir fyrir flutning sinn á laginu Heyr, himna smiður á lestarstöð í Þýskalandi. Þá hefur Ragnar einnig leikið með rokksveitum á borð við Sign og Sólstafi og látið til sín taka í heimi kvikmynda og sjónvarps. Hann var á síðasta ári tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir tónlistina í þáttaröðinni Vitjanir.

Með þeim á ferðalaginu verður gítarleikarinn og pródúsentinn Kjartan Baldursson. Saman myndar þríeykið hljómsveit sem sjá mun um allan tónlistarflutning á ferðalaginu.

Þau spila í Tehúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöld, Hildibrand í Neskaupstað á þriðjudagskvöld og Beljanda á Breiðdalsvík á miðvikudagskvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.