Markmið hollvinasamtaka í höfn
Hollvinasamtök Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað hafa nú lokið því ætlunarverki sínu að styrkja allar deildir spítalans með tækjakaupum og öðrum góðum verkum. Nú síðast gáfu samtökin fæðingardeildinni öryggis- og endurlífgunarborð, hitakassa og í samvinnu við Kvenfélag Reyðarfjarðar nýtt og fullkomið ljósaborð fyrir ungbörn með gulu. Þá gefa Samtök útgerðarmanna í Neskaupstað Breiðabliki sérútbúna baðlyftu. Andvirði gjafanna nú er tæpar sjö milljónir króna.
Hollvinasamtök FSN hafa lagt hverri deild sjúkrahússins til mikilvæg tækiSr. Sigurður Rúnar Ragnarsson, formaður hollvinasamtakanna og prestur Norðfjarðarsóknar, segir þau hafa notið velvildar frá Rauða krossinum, fyrirtækjum og fólki á Austurlandi. ,,Þetta er lokaátakið í því að gera öllum deildum sjúkrahússins til góða frá því við stofnuðum samtökin árið 2000. Þær hafa allar, nýjar sem gamlar, fengið tækjabúnað eftir því sem við verður komið. Nú getum við sest niður um stund og áttað okkur á því hvað við gerum næst. Verkefnin eru óþrjótandi, en blasir þó við að reyna að endurbæta sneiðmyndatæki sjúkrahússins á næstu árum."