Markmið að búa vel að tónlistarfólki í nýrri félagsaðstöðu

BRJÁN (Blús-, rokk- og jazzklúbburinn á Nesi) tók í byrjun sumars í notkun nýja félagsaðstöðu í húsinu sem áður hýsti verslunina Tónspil í miðbæ Neskaupstaðar. Þar er nú vel búin æfinga- og upptökuaðstaða á efri hæðinni en tónleikasalur á þeirri neðri.

Á efri hæðinni er stórt æfingarými, stjórnherbergi fyrir upptökurnar, tvö herbergi sem einstaklingar geta leigt og síðan kaffistofa sem meðal annars nýtist sem félagsaðstaða.

Á neðri hæðinni er búið að útbúa fullkominn tónleikasal, með hljóðvistarplötum á steinveggjunum, vönduðu hljóðkerfi frá dB með mixer sem býr yfir 18 rásum þannig hægt er að taka upp tónleika og hljóðblanda eftir á. Félagið á einnig búnað svo sem gítarmagnara, hljóðnema, monitora og trommusett auk gamals píanós sem stendur við hliðina á sviðinu.

„Við vildum búa til stóra og góða aðstöðu. Upptökugræjurnar á efri hæðinni eru ekki jafn fullkomnar og notaðar eru í hljóðverum en hvetja krakka til að koma og skapa. Salinn á neðri hæðinni er búið að innrétta og stilla öll tæki þannig að hljóðið í honum er mjög gott. Hann er líka mátulega stór, það skapast góð stemming þótt hér séu ekki nema 30-40 gestir, eins og var í gamla kjallaranum,“ útskýrir Guðmundur Höskuldsson, formaður BRJÁN.

Auðveldara að halda tónleika


Það var SÚN sem keypti húsið vorið 2022, um það leyti sem verslunin Tónspil, sem þjónað hafði tónlistarfólki á Austurlandi og víðar í áraraðir, var að loka. SÚN afhenti BRJÁN húsnæðið til að byggja þar upp félagsaðstöðu en hana hafði skort í nokkur ár eftir að svokallaður Blúskjallari, nokkru utar í bænum, var seldir en inn í hann flæddi reglulega í miklum rigningum eða leysingum. Stólar úr kjallaranum eru í nýja salnum. Þá hefur verið ákveðið að halda í Tónspilsheitið.

Guðmundur segist hafa verið ósáttur við það á sínum tíma að kjallarinn hafi verið seldur. Honum fannst líka breytingarnar á nýja húsnæðinu ganga hægt og gagnrýndi það á aðalfundi í fyrra. Slíkt gat ekki endað nema á einn hátt: „Ég tók að mér forustu í BRJÁN.“

Uppbyggingin hófst af alvöru eftir áramót og hefur síðan verið unnið hörðum höndum með aðstoð margra, bæði einstaklinga og fyrirtækja í bænum. Aðstaðan var síðan opnuð um sjómannadagshelgina. „Þessi aðstaða breytir því fyrir BRJÁN að hér er alltaf hægt að fara inn til að halda tónleika án þess að til þess þurfi leyfi annarra aðila eða leggja út í sérstakan kostnað.

Hlutverk BRJÁN er efla tónlistarstarf og áhuga í Neskaupstað og nærsveitum. Við viljum greiða götu fólks sem vill spila hér og það gerum við með fullkominni aðstöðu. Við reynum að hafa alla umgjörð þannig að fólki líði vel hér,“ segir Guðmundur.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.