Menningarhátíðin Innsævi tekist vonum framar
Allra síðustu viðburðirnir á lista- og menningarhátíðinni Innsævi í Fjarðabyggð fara nú fram en hátíðinni lýkur um helgina. Verkefnastjóri segir afar gleðilegt hvað gestum hefur fjölgað mikið að þessu sinni.
Innsævi er nú haldin í þriðja skiptið og segir forstöðumaður Menningarstofu, Jóhann Ágúst Jóhannsson, finna mikla ánægju bæði meðal þess listafólks sem þátt hefur tekið en ekki síður fjölmargra gesta sem sótt hafa hvern viðburðinn á fætur öðrum síðustu vikurnar. Skiptir þá engu hvort um hefur verið að ræða viðburði í Neskaupstað eða Mjóafirði.
„Það er búið að vera afar skemmtilegt hér í Fjarðabyggð síðustu vikurnar og allt tekist með miklum ágætum. Það hefur sérstaklega vakið athygli allir þessir listamenn sem hér hafa komið fram og annaðhvort eru af svæðinu sjálfu eða með austfirskar tengingar. Sérstaklega finnst mér gaman að segja frá að aðsókn á myndlistarsýningarnar hefur verið afar góð og mun betri en áður fyrr var raunin. Þá er ekki síður frábært að vitna hve vel hefur tekist til í Tónspili þar sem unga fólkið hefur farið á kostum.“
Innsævi er stór menningarhátíð á íslenskan mælikvarða enda stendur hún í fimm vikur og nánast dag hvern eitthvað spennandi á seyði einhvers staðar í sveitarfélaginu.
Aðeins fjórir viðburðir eru enn eftir áður Innsævi lýkur formlega á sunnudaginn kemur. Í dag og fram á helgina geta áhugasamir kynnt sér sýningu Marc Alexander í Sólbrekku í Mjóafirði, ÓM hljóðinnsetningu í Tónspili auk þess sem Tríó Inga Bjarna heldur tónleika í kvöld í Frystihúsinu Breiðdalsvík og svo lokatónleika hátíðarinnar annað kvöld í Tónlistarmiðstöð Austurlands.
„Svo er það sýningin Pressuð flóra Íslands sem opnar í Templaranum á Fáskrúðsfirði á laugardag sem er svona endapunkturinn á hátíðinni en sú sýning verður þó áfram uppi og opin þó Innsævi ljúki þar með formlega. Hægt verður að skoða hana áfram fram að Frönskum dögum.“
Hljómsveitin Dundur ein þeirra sem fram komu í Tónspili en húsnæðið nýst frábærlega fyrir tónlistarfólk á öllum aldri yfir Innsævið. Mynd Innsævi