Metaðsókn á Minjasafn Austurlands á afmælisári

Aldrei hafa fleiri gestir komið á Minjasafn Austurland heldur en í fyrra þegar safnið fagnaði 80 ára afmæli sínu. Fjölmennt var á fyrstu sýningarhelgi nýrrar sumarsýningar safnsins.

„Heildarfjöldi gesta í fyrra var rúmlega .4.600 um það bil 1.000 fleiri en árið áður. Fjölgunin var að miklu leyti vegna gesta úr skemmtiferðaskipa sem komu til Seyðisfjarðar, en heimsókn á safnið var meðal þeirra ferða sem boðið var upp á. Við fengum um 1.430 gesti úr skipunum,“ segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri.

Safnið fagnaði í fyrra 80 ára afmæli sínu með ýmsum viðburðum. „Við nýttum veginn mikið til að vekja athygli á starfinu. Við vorum meðal annars með 80 færslur á 80 dögum í kringum afmælisdaginn þar sem við sögðum frá ýmsu úr sögu og starfi safnsins, auk lengri pistla um safnið.“

Kjarval í safnafræðslunni í haust


Þá var mikill kraftur lagður í safnafræðslu safnsins sem skilaði sér í að ekki hafa fleiri notið hennar síðan árin 2009-11. „Við vorum bæði með hefðbundnar heimsóknir þar sem kennarar koma með nemendur en líka safnfræðsluverkefni í samvinnu við barnamenningarhátíðna BRAS.

Þar buðum við öllum skólum í Múlaþingi upp á smiðjur sem tengdust óáþreifanlegum menningararfi. Við hér með smiðju um tóvinnu, þar sem nemendur lærðu um allt ferlið frá því þeir fengu ullina í hendur þar til úr henni var unnið band en líka farandsmiðjur um langspil og tálgun úr tré.“

Næsta vetur verður sérstök áhersla í safnafræðslunni á listmálarann Jóhannes Sveinsson Kjarval. „Safnið varðveitir mikið af persónulegum munum hans. Þeir verða sýndir í Sláturhúsinu sem einnig fær leiksýninguna Kjarval, barna- og fjölskyldusýning sem sýnd var í Borgarleikhúsinu og býður austfirskum skólum á hana.“

Sumarsýningar um konur


Þrjár sýningar eru á safninu í sumar. Í fyrsta lagi grunnsýning safnsins, í öðru lagi um hreindýrin á Austurlandi og í þriðja lagi sérstök sumarsýning um landnámskonuna. Sú sýning er unnin í samstarfi við Þjóðminjasafnið, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi og Antikva, sem sér um fornleifauppgröftinn frá Firði í Seyðisfirði. Gefur þar meðal annars að líta muni úr uppgreftrinum en líka nælur frá fjallkonunni sem fannst við Vestdalsvatn sumarið 2004. Þær hafa ekki verið sýndar áður opinberlega.

Sýningarnar eru hluti af samvinnu Minjasafnsins við Héraðsskjalasafn Austurland og við Tækniminjasafn Austurlands og ber yfirskriftina „Konur“. Fyrstnefndu söfnin tvö eru bæði í Safnahúsinu á Egilsstöðum en skjalasafnið er með sýningu um Margrét Sigfúsdóttur, sem var verkakona, kennari og skáld í Fljótsdal um aldamótin 1900. Tækniminjasafnið er með útisýningu við Lónsleiru á Seyðisfirði um atvinnulíf kvenna þar um aldamótin 1900.

„Það komu um 300 manns til okkar á 17. júní. Það er orðinn hluti af hátíðahöldunum hjá mörgu fólki að koma við hjá okkur,“ segir Elsa Guðný.

Hún bætir við að öfugt við flesta ferðaþjónustuaðila þá sé of mikill hiti og sól ekki endilega það besta fyrir söfnin þar sem fólk sæki þau frekar í kulda eða rigningu. En óháð spám um kulda á Austurlandi fram eftir sumri er ekki útlit fyrir að aðsóknarmetið verði bætt strax. „Það er ljóst að við fáum ekki jafn marga hópa úr skemmtiferðaskipunum þótt alltaf slæðist til okkar ferðafólk á eigin vegum,“ segir Elsa Guðný að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.