Miðasala aldrei farið eins hratt af stað á geðheilbrigðistónleika

Miðasala hefur aldrei farið jafn hratt af stað á árlega tónleika sem haldnir eru til styrktar geðheilbrigðismálum á Austurlandi. Popptónlist níunda áratugarins verður í forgrunni tónleikanna sem haldnir verða í Valaskjálf á laugardagskvöld.

„Við erum búin að selja um helming miðanna. Oft hafa 20-30 miðar selst fyrir tónleikadaginn þannig maður hefur verið hálf stressaður um hvort einhver mæti.

Ég veit ekki hvað veldur, hvort það eru efnistökin eða að tónleikarnir séu að festa sig í sessi og fólk vilji leggja málefninu lið,“ segir Bjarni Þór Haraldsson, aðalskipuleggjandi tónleikanna.

Tónleikarnir hafa verið haldnir árlega frá árinu 2017. Efnisskrá þeirra hefur oft verið í rokkaðri kantinum en að þessu sinni verður yfirbragurinn poppaðri með lögum eftir tónlistarfólk á borð við Duran Duran, Cyndi Lauper, Eurythmics og Tinu Turner. „Við erum búin að taka rokktónlist níunda áratugarins og nú er komið að poppinu,“ segir Bjarni.

Hljómsveitin er sem fyrr skipuð austfirsku tónlistarfólki, en annar tilgangur tónleikanna hefur verið að stefna saman og gefa ungum austfirskum hljóðfæraleikurum tækifæri. Með henni syngja þau Stefán Jakobsson, oft kenndur við Dimmu og Stefanía Svavarsdóttir. Stefán hefur reglulega komið fram á tónleikunum en þetta eru þau fyrstu hjá Stefaníu.

„Hún er framúrskarandi söngkona. Hún hefur ekki verið áberandi með hljómsveitum en tekið þátt í ýmsum hátíðartónleikum. Ég sá hana á 50 ára afmælistónleikum Lifunar, plötu Trúbrots, þar sem hún fór í fötin hennar Shady Owens, auk þess sem þær sungu dúett.“

Tónleikarnir hefjast í Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan 20:30 á laugardagskvöld. Fyrst á svið er ný austfirsk sveit, Townies. „Hún er óskilgetið afkæmi þessa brölts okkar. Hún er að mestu skipuð nýútskrifuðum menntskælingum sem sækja líka í níunda áratuginn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.