Mikil aðsókn í nám hjá FAS
Lokið er skráningu til náms í Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu, FAS, á nýhafinni önn. Alls eru skráðir 340 nemendur við skólann. Aðeins einu sinni áður hafa verið fleiri nemendur en það var á haustönn 2007 þegar þeir voru 360 og þar af um 130 í skipstjórnarnámi. Þá voru aðstæður nokkuð sérstakar því um áramótin 2007-2008 breyttust lög um skipstjórnarnám.
Nú eru í skipstjórnarnámi 87 nemendur, 35 nemendur í fjarnámi á B-stigi vélstjórnar en það nám er í samvinnu við Tækniskólann og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Í grunnnámi upplýsinga- og fjölmiðlagreina eru 10 nemendur skráðir og í öðru fjarnámi eru um 60 nemendur sem dreifast á ýmsa áfanga.
Þeir nemendur sem koma reglulega í skólann hafa aldrei verið jafnmargir nú eða um 150. Stærsti hópurinn eru nemendur sem stefna að stúdentsprófi en þeir um 90. Þá sækja um 30 nemendur úr Heppuskóla kennslu í valgreinum í FAS. Í almennu námi eru 20 nemendur og 9 á A-stigi vélstjórnar.
Þá má einnig geta þess að kennarar hafa aldrei verið fleiri í FAS. Þeir sem koma að kennslu í skólanum eru tuttugu og einn. Þar af eru þrettán í fullri stöðu. Allur þessi fjöldi nemenda og kennara í skólanum þarf sína vinnuaðstöðu. Því hefur þurft að bæta við skápum fyrir nemendur og eins skrifborðum í vinnuaðstöðu kennara. Það verður því örugglega nóg um að vera í FAS á næstu vikum og mánuðum.
Frá þessu greinir á vefnum fas.is og er myndin, úr rafiðnaðardeild skólans, einnig fengin þaðan.