Mikilvægt að vísindin eigi í samskiptum við nærsamfélagið
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. jún 2025 10:49 • Uppfært 13. jún 2025 10:49
Kynningar verða haldnar á morgun á Seyðisfirði á þeim rannsóknum sem eru í gangi á vegum Skálanesseturs og erlendra háskóla sem setrið er í samstarfi við. Meðal fyrirlesara er prófessor sem komið hefur nærri árlega á Seyðisfjörð frá árinu 2010.
„Ég fékk prófessorsstöðu fljótlega eftir að ég lauk doktorsnámi. Ég trúi að vettvangsferðir erlendis séu mikilvægar fyrir nemendur en í náminu hjá mér var ekkert slíkt.
Ég vildi fyrst fara til Gvatemala því ég hafði verið þar í doktorsverkefninu mínu, en það var önnur deild með ferðir þangað og ég vildi ekki troða á neinar tær. Ég vissi hins vegar að náttúra Íslands hefði sömu eiginleika og ég hafði eitthvað heyrt um byggingu álversins á Reyðarfirði þannig mér fannst allt eins gott að fara til Íslands.
Ég vildi ekki fara í gegnum ferðaskrifstofu þannig ég hringdi í Karl Benediktsson (prófessor í landfræði) í Háskóla Íslands – sem á sama afmælisdag og ég. Ég hringdi í hann upp úr þurru og kynnti mig.
Hann byrjaði á að benda mér á ferðaskrifstofurnar en þegar ég sagðist ekki vilja þær og útskýrði aðeins hugmyndir mínar um að finna stað sem ég gæti heimsótt aftur og aftur og fylgst þannig með í lengri tíma minntist hann á fyrrverandi nemanda sinn sem væri að byggja upp einhvers konar rannsóknarstöð á Skálanesi.“
Þetta segir Patrick Heidmann, prófessor í umhverfis-, landfræði og sjávarvísindadeild Háskólans í Suður-Connecticut í Bandaríkjunum. Hann hefur frá árinu 2010, fyrir utan Covid-árin, komið árlega með hóp nemenda til Seyðisfjarðar.
Fékk aðeins að koma út á smíðakunnáttuna
Íslenski landfræðineminn sem honum var bent á er Ólafur Pétursson, sem leitt hefur uppbyggingu rannsóknaseturs á Skálanesi. Patrick hringdi næst í hann. „Ég var ekkert að senda tölvupósta, bara hringdi. Við töluðum saman í dálitla stund en urðum sammála um að ég kæmi. Hann samþykkti bara að bjóða mér því ég er lærður smiður og hafði unnið í sveit,“ bætir Patrick við.
Sérfræðiþekking hans liggur á sviði mannlegrar landfræði þar sem horft er á samspil mannsins og náttúrunnar. Patrick segir að hann og Ólafur hafi náð vel saman og verið sammála um hvert skyldi stefna. Patrick kveðst hafa hrifist af tilraunastarfsemi á Skálanesi og þeir staðið saman að ýmsum slíkum, til dæmis haldið þar kýr þar sem reynsla Patricks af kúabúi kom sér vel.
Mikilvægt að geta stundað langtímarannsóknir
Fleiri skólar eru í samstarfi við Skálanes, meðal annars John Moores háskólinn í Liverpool í Englandi þar sem Patrick er gestaprófessor. „Þannig erum við með nokkra hópa hér yfir árið til að fylgja eftir rannsóknum. Mér finnst skipta máli að halda úti langtímarannsóknum þar sem það kostar mikla peninga, tíma og kolefni að fljúga með nemendahóp hingað sem er svo hér bara í 2-3 vikur,“ en um 10-15 nemendur koma með í hverri ferð.
Patrick þekkir nokkuð vel til á Íslandi því hann kennir líka í haf- og strandsvæðanámi Háskólaseturs Vestfjarða. „Flestar rannsóknir á Íslandi eru stundaðar í kringum háskólana sem eru á suðvesturhorninu og kannski á Akureyri, þannig það eru tækifæri og forréttindi að geta stundað rannsóknir hér.“
Vilja fá að heyra skoðanir samfélagsins á rannsóknunum
Hefð er fyrir því að Skálanes standi 1-2 á ári fyrir fyrirlestrum eins og verða í Herðubreið á morgun. Patrick segir þá mikilvægt tækifæri fyrir rannsakendurna að eiga samskipti við samfélagið í nágrenni rannsóknanna.
„Fólk sér okkur á ferðinni í bænum, helst þegar við tæmum úr klakavélinni í búðinni því við þurfum að halda sýnunum okkar köldum og kannski þegar við tökum viðtöl. En það eru svo margir vísindamenn sem koma á svæði, taka viðtöl, fara aftur í burtu og síðan heyrir enginn neitt, nema það birtist kannski ein grein í einhverju vísindatímariti sem bara háskólafólk hefur aðgang að.
Hér höfum við tækifæri til að fá beint viðbrögð við því sem við erum að gera. Við getum spurt fólk hvort því þyki ályktanirnar sem við drögum út frá viðtölunum endurspegla veruleikann. Það byggir líka upp traust.“
Patrick er meðal fyrirlesara, en hann mun ásamt fyrrum meistaranema sínum Noelle King ræða um rannsókn sem þau gerðu á bláa hagkerfinu á Austurlandi. Af öðrum fyrirlestrum má nefna langtímarannsókn á líffræðilegum fjölbreytileika og vatnsgæðum sjávar í Seyðisfirði og um athuganir á sjófuglum í nágrenni Skálaness. Fyrirlestrarnir byrja klukkan 17:00 og aðgangur er ókeypis.
Mynd: Skálanes