Minnst gæludýraeign meðal Austfirðinga

Austfirðingar eru ólíklegri til að halda gæludýr en íbúar annarra landshluta, ef marka má nýja spurningakönnun sem Maskína gerði á gæludýraeign Íslendinga.

Samkvæmt henni eru ekki gæludýr á 64,8% austfirskra heimila. Það er hæsta hlutfall sem mælist á undan Reykjavík þar sem hlutfallið er 61,7% en á Vesturlandi, Reykjanesi, Vesturlandi og Vestfjörðum eru gæludýr á um helmingi heimila. Á landsvísu er hlutfallið 58,5%.

Austfirðingar skera sig þó ekki úr með að hundar eru algengasta gæludýrið. Tæp 22% aðspurðra sögðu hund vera á heimilinu. Það er þó næst lægsta hlutfallið á eftir Reykjavík þar sem 18% sögðust vera með hunda en á Vesturlandi og Vestfjörðum eru hundar á 33% heimila.

Kettir eru á 13,4% austfirskra heimila, sem er þeirra lægsta hlutfall en á Suðurlandi og Reykjanesi eru þeir á um fjórðungi heimila.

Hvorki fuglar né fiskar mælast á Austurlandi í könnuninni og 1,6% segjast vera með nagdýr. Hins vegar eru 5% með annars konar gæludýr sem er hæsta hlutfall þeirra í könnuninni.

Alls svöruðu 967 manns könnuninni, þar af 35 á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.