Munar miklu að geta tekið skipstjórnarréttindin í heimabyggð

Tiltölulega stór áfangi náðist austanlands í byrjun ársins þegar Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað hóf á að bjóða upp á skipstjórnar- og vélarvarða, en undanfarin hafa áhugasamir þurft að taka slíkt nám í höfuðborginni. Aðsóknin fyrstu önnina var framar vonum.

Að forminu til kallast námið smáskipanám, þar sem það nær eingöngu til skipstjórnarréttinda á báta undir fimmtán metrum að lengd. Slík réttindi voru lengi vel kölluð pungapróf. Ekki fór eftirspurnin á milli mála því fullsetið var í námið þegar það hófst í ársbyrjun og þátttakendur munu útskrifast formlega um næstu jól.

Verkmenntaskólinn, með hjálp frá ýmsum fyrirtækjum á Austurlandi, fjárfesti á síðasta ári í sérstökum skipstjórnarhermi, þar sem nemendur komast í tæri við aðstæður og áskoranir á sjó án þess þó að setja nokkurn í hættu við raunverulegar aðstæður.

Þrír hópar nemenda


Kennarinn er Andri Snær Þorsteinsson og segist hann vera himinlifandi yfir góðum undirtektum við þessu námi, enda spari nemendur sér dýrar ferðir og uppihald í höfuðborginni og geti að stóru leyti sinnt náminu á eigin hraða enda er það mikið til í fjarnámi.

Aðspurður út í hvaða fólk það er sem skráði sig í námið í vetur segir hann að þar skiptist fólk aðallega í þrjá flokka. „Það má segja að stærsti hópurinn sé fólk sem er að starfa eða vill starfa við fiskeldið hér fyrir austan og vill auka þekkingu sína og færni. Annar stór hópur sér fyrir sér að slík réttindi nýtist í ferðaþjónustu og að síðustu eru það einstaklingar sem hafa hug á að leggja smábátaútgerð fyrir sig.“

Frábært að geta stundað þetta hér


Sólveig Lilja Ómarsdóttir frá Breiðdalsvík var eina konan í 27 manna hópi fyrstu önnina. Hún hefur um fjögurra ára skeið starfað við fiskeldi fyrir Kaldvík. Hún segir starfið frábært og að hugmyndin með skipstjórnarréttindum sé eingöngu að auka færni sína í starfinu.

„Það ekkert minna en frábært að geta stundað slíkt nám hér fyrir austan, því ég þekki nokkrar stelpur sem hafa tekið þetta fyrir sunnan með töluverðum tilkostnaði og tíma. Ég var fljót að skrá mig þegar þetta var auglýst, enda hef ég verið á prömmum í mínu starfi síðustu árin og því komin með ágæta hugmynd um hvað hafa ber í huga á slíkum bátum.

Með auknum réttindum gefst mér færi á að gera enn betur í mínu starfi og auðvitað fylgir líka launahækkun því meiri réttindi sem maður hefur. Ekki skemmir fyrir að fyrirtækið er að styrkja og sýna mikinn lit fyrir þá sem fara í þetta nám, því þar er lögð mikil áhersla á aukna þekkingu starfsfólks. Svo er auðvitað löngu kominn tími á að fjölga konum í sjómannastéttinni og þar legg ég mitt af mörkum.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.