Neyðarkallinn fær góðar móttökur austanlands
Sala á bæði stórum og litlum Neyðarköllum björgunarsveitanna hefur farið ágætlega af stað austanlands en tveir dagar eru síðan þessi mikilvæga fjáröflun allra björgunarsveita landsins hófst þetta árið.
Björgunarsveitin Hérað gengið milli fyrirtækja síðustu tvo daga, fengið góðar móttökur víðast hvar og fyrirtækin spenntari fyrir stórum Neyðarkalli en þessum hefðbundnu minni köllum sem flest heimili kaupa.
Í anddyri Nettó á Egilsstöðum hafa meðlimir björgunarsveitarinnar Jökuls, sem samanstendur af sjálfboðaliðum úr Jökuldal, Jökulsárshlíð og Hróarstungu, setið síðustu tvo daga og boðið kallinn og hyggjast gera það áfram út sunnudaginn en þá lýkur sölunni þessa vertíðina.
Með tilliti til að jafnt og þétt hefur dregið úr flugeldasölu björgunarsveitanna síðustu árin en það hefur löngum verið ein helsta fjáröflunarleið sveitanna er sala á Neyðarkallinum sífellt að verða mikilvægari þáttur til að greiða þann mikla kostnað sem þarf til að halda úti björgunarsveitum sem víðast og með sem allra bestum búnaði og tækjum.