Nýjungar í sorphirðumálum á Héraði

Fljótsdalshérað og Íslenska gámafélagið hafa gert með sér samning um þriggja tunnu sorphirðukerfi í sveitarfélaginu. Samningurinn nemur þrjúhundruð milljónum króna til sjö ára og mun breyta sorphirðukerfinu í grundvallaratriðum.

alaskadump-450076-001-sw.jpg

Samningurinn fjallar um sorphirðu á Fljótsdalshéraði, þar sem þrjár tunnur á hvern aðila verða uppistaðan í sorphirðukerfinu. Hugmyndin er að minnka sorp til urðunar og flutnings til mikilla muna til að ná fram sparnaði. Lífrænn úrgangur verður ekki urðaður. Á þann hátt sparast einnig urðunarsvæði. Sorphirðugjöld munu ekki hækka umfram verðbólgu þrátt fyrir fjölgun tunna. Gjöld þeirra sem þegar hafa fengið sér endurvinnslutunnu munu lækka.

Íslenska gámafélagið tekur við sorphirðu á Héraði nú um áramót. Í maí í vor hefst kynningarferli innan sveitarfélagsins um flokkunina og í september fá allir tunnurnar þrjár til notkunar. Innleiðingu breytinganna mun ljúka í árslok 2009. Fljótsdalshérað er fjórða svæðið á landinu sem tekur upp hið nýja kerfi.

Tunnurnar þrjár sem íbúar fá afhentar á næsta ári eru brúna tunnan, sem eingöngu er ætluð undir lífrænan úrgang. Í græna tunnu má setja allan pappír heimilisins, bylgjupappa og pappa, plast, minni málmhluti (t.d. niðursuðudósir, málmlok af glerkrukkum) og fernur. Í gráa tunnu fer allt sem ekki getur farið í brúnu eða grænu tunnuna, né farið í endurvinnslu.

Eiríkur Bj. Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og Jón Þórir Franzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins, undirrituð samninginn í dag.

 

 

 

 

 

 

Athugið að meðfylgjandi ljósmynd tengist í engu sorphirðumálum á Fljótsdalshéraði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.