Norðfirðingurinn sem byggði upp blakið í Mosfellsbæ

Guðrún Kristín Einarsdóttir, Gunna Stína, flutti að austan fyrir fjörutíu árum en er alltaf jafn mikill Norðfirðingur. Hún hlaut nýverið viðurkenningu fyrir uppbyggingu blakstarfs í Mosfellsbæ og á landsvísu og segir að félagsmálavafstrið megi rekja til uppeldisins fyrir austan.

„Ég er Austfirðingur að ætt og uppruna, mamma er frá Reyðarfirði og pabbi frá Mjóafirði en við bjuggum á Norðfirði. Svo ég er Norðfirðingur í húð og hár. Eftir stúdentinn, sem ég kláraði 1984 frá Egilsstöðum, þá flutti ég í hins vegar í burtu og hef haft búsetu annars staðar en fyrir austan síðan þá,“ segir Gunna Stína.

Hún æfði þó ekkert blak í Neskaupstað. Það var ekki enn komið þegar hún var að alast upp. „Við æfðum handbolta úti á malarvelli, og seinna var völlurinn malbikaður fyrir okkur, rosa fínt. Svo þegar nýja íþróttahúsið á Norðfirði var byggt þá var það þannig að það var ekki með löglegum handboltavelli, það var í löglegri breidd en mikið styttra en löglegur handboltavöllur er, út af kostnaði.

Við tókum kannski bara fjögur, fimm skref og vorum komnar að vítateignum hinu megin. Við vorum rosalega flinkar í hornunum því við vorum með löglega breidd en svo fórum við suður í Laugardalshöllina að keppa og vorum sprungnar eftir tvær eða þrjár sóknir því það var allt í einu svo langt á milli vítateiga!“

Dregin í öldungablakið


Systir hennar, ellefu árum yngri, náði hins vegar í blakið í Neskaupstað og dró Gunnu Sínu síðan inn í það þegar hún var líka flutt suður. „Ég var orðin 37 ára gömul, þegar Þórey systir mín dró mig í „öldungablak“ hjá ÍK, Íþróttafélagi kvenna. Ég mætti svona einu sinni í viku til að byrja með en fór með liðinu á öldungamót sem var haldið heima í Neskaupstað. Það var alveg hrikalega skemmtilegt.“

Hún komst á snoðir á að í Mosfellsbæ, þar sem hún býr, var nýstofnuð blakdeild. Hún gekk til liðs við hana en fannst vana upp á kraftinn í deildinni. Hún gaf kost á sér í stjórn, var kjörinn formaður árið 2001 og hefur verið það síðan.

Fjöldi Norðfirðinga hefur síðan farið í gegnum deildina. Gunna Stína segir vatnaskil hafa orðið vorið 2011 þegar hjónin og blakþjálfararnir Miglena Apostolova og Apostol Apostolov ákváðu að flytja frá Norðfirði ásamt dætrum sínum og buðu Aftureldingu krafta sína. Vorið eftir varð liðið Íslands- og bikarmeistari.

Formaður Norðfirðingafélagsins


Gunna Stína ræktar tengslin austur. Hún starfar sem geislafræðingur og kemur reglulega austur til að vinna á sjúkrahúsinu. Hún var líka formaður Norðfirðingafélagsins í tólf ár, lét af því í fyrra. Félagið hélt fasta viðburði á borð við menningarkvöld, tónlistarkvöld og sólarkaffi í janúar, auk þorrablóta. Þegar félagið varð 50 ára árið 2018 var blásið til mikillar tónleikadagskrár, Nesrokks í Hörpu, þar sem allir sem að komu voru Norðfirðingar.

Gunna Stína segir að töluverð þátttaka hafi alla jafna verið í starfseminni. „Það eru svona 600 manns í félaginu og þegar við héldum eitthvað stærra, tónleika eða annað, þá voru kannski að mæta 200-300 manns. En þátttaka fór dvínandi með árunum, það verður að segjast. Það varð erfiðara að ná til fólks og ég held að það sé bæði vegna þess að það er meira við að vera en líka vegna þess að fólk er í meiri samskiptum en var, til dæmis í gegnum Facebook. Það hefur ekki alveg sömu þörf og áður fyrir að hittast.“

Alin upp við félagsstarf í Neskaupstað


Átthagafélög eins og Norðfirðingafélagið eru að mati Gunnu Stínu mikilvæg og mikilvægt fyrir brottflutta að starfsemi þeirra sé til staðar, eflist og dafni. „Já, það held ég. Ræturnar eru heima og í svona félagsskap er hægt að rækta þær. Fólkið heima fylgist með félagsskapnum líka og kann að meta tengslin, þegar við til dæmis höldum sjómannadagskaffi og Norðfirðingar eru staddir hér fyrir sunnan, þá koma þeir í kaffið til okkar.“

Það er ekki hver sem er sem gefur sér tíma, frá vinnu og fjölskyldulífi, til viðlíka þátttöku í félagslífi og Gunna Stína hefur gert og gerir enn. „Einhvern veginn finnst manni þetta bara vera eðlilegt. Ég held að þetta komi frá því að vera alin upp í Neskaupstað. Þar var lokað í níu mánuði á ári, maður fór ekkert út úr firðinum, Oddskarðsgöngin ekki komin og það var bara þannig að maður var heima frá september og fram í maí. Við settum upp leiksýningar, það var mikið félagsstarf og íþróttastarf. Það voru allir alltaf að gera eitthvað og ég held að ég búi að því.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.