Norðurljósablús í uppsiglingu

Blúshátíðin Norðurljósablús verður haldin í fjórða sinn á Höfn í Hornafirði dagana 5. til 7. mars næstkomandi. Það er Hornfirska skemmtifélagið sem stendur að vanda fyrir hátíðinni.

norurljsabls_vefur.jpg

Sigurður Mar Halldórsson segir sjaldan hafa verið meiri blús í íslensku samfélagi en einmitt um þessar mundir.  ,,Fólk hefur í gegn um árin notað blúsinn til að syngja sig frá erfiðleikunum og gleyma stað og stund í tónlistinni og þannig verður það á Norðurljósablús.  Til þess að gefa sem allra flestum tækifæri á að finna blústaktinn í hjartanu verður frítt inn á alla tónleika hátíðarinnar

 

Blúsað um allan bæ

Aðal tónleikarnir hvert  kvöld hátíðarinnar verða á Hótel Höfn.  Eftir þá verður blúsað samtímis á þremur stöðum í bænum, Hótel Höfn, Kaffi Horninu og Veitingahúsinu Víkinni.  Þannig geta gestir gengið milli staða og hlustað á margskonar blús.

  

32 blúsmenn og konur í níu hljómsveitum

Sveitirnar sem koma fram á hátíðinni eru B-Sig frá Reykjavík,Guðgeir Björnsson ásamt hljómsveit frá Egilsstöðum, Pitchfork Rebellion frá Húsavík og Vax frá Egilsstöðum.  Tvö hornfirsk bönd leika á hátíðinni, Mæðusveitin Sigurbjörn og Hulda Rós og rökkurbandið. Einnig kemur saman á ný gamalt húsband úr Sindrabæ frá 1968 og leikur á hátíðinni og kalla þeir sig Blúsvíkingana.  Þá eru ótaldir feðgarnir Guðmundur og Örn Elías sem betur eru þekktir sem Mugison og Papa Mug en þeir munu skemmta matargestum á Humarhöfninni.

Að sjálfsögðu verður blúsdjamm á hátíðinni þar sem allir geta fengið að taka í hljóðfæri eða syngja og oft hefur myndast einstök djamm stemmning á Norðurljósablús.

  

Hornfirska skemmtifélagið

Hornfirska skemmtifélagið hefur veg og vanda að Norðurljósablús í samstarfi við veitingamenn og ferðaþjónustufólk á Hornafirði.  Félagið hefur hlotið  Menningarverðlaun Hornafjarðar og er styrkt frá Menningarráði Austurlands. Önnur verkefni Skemmtifélagsins eru að standa fyrir tónlistardagskrá á haustmánuðum ár hvert og þar eru það hornfirskir skemmtikraftar sem stíga á stokk.  Hornfirska skemmtifélagi er einn af stofnendum Ferðaþjónustuklasa Hornafjarðar, Ríki Vatnajökuls ehf," segir í fréttatilkynningu.

  

Á meðfylgjandi mynd er Hulda Rós Sigurðardóttir ásamt hluta af Rökkurbandinu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.