Notar baggaband, girðingarlykkjur og gamla vinnuvettlinga í textílverkin

Ásta Kristín Knight Þorsteinsdóttir heldur um þessar mundir sína fyrstu einkasýningu í Gallerí Glettu í Hafnarhúsinu á Borgarfirði. Hún sækir bæði innblástur að verkunum og hráefni í þau til æskustöðvanna á Jökulsá á Borgarfirði.

„Ég nota hráefni sem tengist viðfangsefninu, til dæmis upprakta vinnuvettlinga, girðingalykkjur sem upphengi og rúllubaggaband bæði sem uppistöðu í vefverki og til að sauma út með.

Það er ekki auðvelt að sauma út með baggabandinu. Það er mjög óstýrilátt hráefni en líka mjög fallegt. Þegar maður hefur tekið í sundur þræðina, þannig það verði nógu fíngert til að hægt sé að vefa úr því, verður það hálftætt eins og hör og þannig náttúrulegt þótt það sé það alls ekki,“ segir Ásta Kristín.

Kortleggur landið í textíl


Sýningin kallast „(að) kveðja – kortlagning minninga.“ Á henni fæst Ásta Kristín með minningar tengdar landslagi sem flestar hverfast um æskustöðvarnar á Jökulsá.

„Ég með minningar og landslag og hvernig þau tengjast. Þegar ég hugsa um landslag þá hugsa um um nærlandslag, það er ég hugsa meira um þúfur og smáatriði frekar en fjöll og jökla.

Sum verkanna eru eins og kort. Í einu má sjá útlínur af ám eða landslagi sem ég þekki. Annað verk er kort af skautasvelli sem varð til í gömlum fjárhúsum þegar vatnið lak inn í haustrigningu og síðan frysti. Við systkinin og vinir okkar skautuðum þar endalaust. Ég gerði líka kort af túnum, þar sem einn sentímetri á hæð jafngildir einum hektara af túni.

En síðan eru óhlutbundnari verk. Til dæmis saumaði ég kort þar sem ég byrjaði á að sauma spor fyrir ákveðna æskuminningu sem tengdist stað í landi Jökulsár, síðan færði ég mig yfir á næstu þúfu eða barð og saumaði spor fyrir aðra minningu. Það veit enginn hvað býr að baki þessu korti nema ég.“

Lærði fyrst að vefa í Hússtjórnarskólanum


Ásta Kristín lauk í vor tveggja ára námi við textíldeild Myndlistarskólans í Reykjavík. Flest verkin á sýningunni eru frá því tímabili, hvort sem þau eru unnin beint í náminu eða ekki. Ásta Kristín segist þó fyrst hafa lært að vefa þegar hún tók eina önn í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað árið 1997.

„Ég veit ekki hvaðan vefnaðaráhuginn kemur en ég átti vinkonu í Menntaskólanum á Egilsstöðum (ME), sem hafði verið í Húsó og þegar ég sá það sem hún hafði ofið fannst mér ég verða að læra að vefa. Ég fór því í Húsó bara því mig langaði að vefa. Ég hafði engan áhuga á öðru sem var kennt þar, að elda eða sauma, en tók það líka og einingarnar voru allar metnar inn í ME.

Textílnámið var draumur sem ég átti ekkert von á að gera neitt í því að láta rætast fyrr en seinna, þegar börnin eru farin að heiman og slíkt - en svo ákvað ég bara að bíða ekki lengur fyrst mér gafst ráðrúm til að láta þetta gerast. Námið var frábært, og nú er ég komin með vefstól og vinnustofu sem ég flyt mig á í næstu viku, með fullt af garni og skissubækur fullar af hugmyndum.“

Sýning Ástu Kristínar er í Glettu, sýningarsal á efstu hæð Hafnarhússins. Flest verkin eru ofin en nokkur eru prjónuð. Á næstu hæð fyrir neðan, þar sem kaffihúsið er, stendur yfir önnur sýning Ástu Kristínar með sex textílverkum sem innblásin eru af sjónum. Sýningarnar eru opnar á opnunartíma kaffihússins fram til laugardagsins 31. ágúst.

Mynd: Stefán Bogi Sveinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.