Ný plata og smáskífa frá Hilmari Garðars
Stöðfirski tónlistarmaðurinn Hilmar Garðarsson hefur verið afkastamikill síðustu mánuði. Í vor sendi hann frá sér nýja plötu þar sem hann tekur nokkur af uppáhaldslögum sínum eftir aðra listamenn. Í síðustu viku bættist nýtt framsamið lag.„Ég hef verið með þessa plötu í huga í 20 ár en aldrei látið af henni verða. Ég var á leið í upptökur á plötu með frumsömdu efni en fannst vanta upp á hana þannig ég fór í þessa á undan,“ segir Hilmar um plötuna „Under the Influence“ sem kom út í apríl.
Þar tekur hann lög eftir listamenn á borð við Bob Dylan, Nick Cave og fleiri. Útsetningarnar eru einfaldar, Hilmar oftast einn með kassagítarinn. Sú aðferð er líka undir áhrifum.
„Mig langaði að gera plötur eins og American-plötur Johnny Cash sem hafa alltaf heillað mig. Þar tók hann lög eftir aðra en gerir útsetningarnar að sínu. Þetta eru lög sem við þekkjum í brjáluðum útsetningum en hann er að mestu einn með kassagítarinn.“
Fyrir tilviljun á leiðinni til heljar
Platan var tekin upp á einum degi í hljóðveri í Reykjavík. Hún inniheldur níu lög, það síðasta, Road to Hell eftir Chris Rea, slysaðist inn fyrir tilviljun. „Ég glamraði það meðan Jónas Björgvinsson (sem tók plötuna upp) var að stilla míkrófónanna. Það var ekkert ætlað á plötuna en honum fannst það virka. Ég var búinn að spila inn sóló fyrir það en við ákváðum að hafa útgáfuna eins hráa og hægt væri.“
Hilmar segir plötuna hafa fengið ágætis viðtökur en eitt laganna, „The Man in the Long Black Coat“ eftir Bob Dylan er á sumarspilunarlista Rokklands. „Viðtökurnar hafa verið furðugóðar miðað við við að ég hef ekki auglýst hana eða fylgt henni eftir enn.“
Ný smáskífa með gamalli upptöku
Til viðbótar við plötuna sendi Hilmar frá sér nýtt lag „Tónarnir dimmu“ á Spotify í síðustu viku. „Þetta er gamalt lag, ég tók það upp á svipuðum tíma og lögin „Aleinn á ný“ og „Haustlag“ í kringum 2008. Ég fékk Orra Harðarson til að fara yfir það aftur, hljóðblanda og við ákváðum að henda því út.“
Hilmar segist ekki vera búinn að ákveða hvenær hann haldi áfram vinnu við næstu plötu með eigin efni. „Ég er ekki að stressa mig. Ég geri ekki plötu til að gera plötu, ég vil vera alveg sáttur við hana.“
Hans næsta verkefni er þátttaka í plötu með lögum og textum sveitunga hans Björns Hafþórs Guðmundssonar sem á að koma út í haust. „Ég hef verið beðinn um að syngja eitt lag á henni. Það er flott lag og verður skemmtilegt verkefni.“
Sjálfur stefnir Hilmar á að fylgja eftir „Under the Influence“ í haust sem og að halda upp á að 20 ár eru liðin frá útgáfu fyrstu sólóplötu hans, „Pleased to Leave You“. „Ég gæli við að halda afmælis- og útgáfutónleika sama kvöldið. Ég væri þá einn með gítarinn fyrst og svo með hljómsveit til að flytja gömlu lögin.“