Nýir rekstraraðilar að sjoppunni á Eskifirði

Hjónin Betúel Ingólfsson og Laufey Rós Hallsdóttir tóku í byrjun maí við rekstri sjoppunnar á Eskifirði – sem þau nefna einfaldlega Sjoppuna. Þau bjóða þar meðal annars upp á fyrstu smass-hamborgarana á Austurlandi.

„Við ákváðum að slá til eftir að það hafi verði nuðað í okkur í dágóðan tíma,“ segir Laufey Rós um aðdraganda þess að þau Betúel tóku við sjoppunni á Eskifirði.

Fyrri rekstraraðilar höfðu staðið vaktina í rúm 20 ár og töldu komið gott, höfðu um nokkurra mánaða skeið auglýst reksturinn til sölu. Þeir voru búnir að ákveða að láta staðar numið nú í sumar og Eskfirðingum leist ekki á ef enginn arftaki fyndist.

Sjoppan er ákveðið hjarta á Eskifirði, eins og mörgum öðrum stöðum. Þar er hægt að nálgast ákveðna vöru, vörur í bílinn, fylgjast með fótbolta og komast í mat allan daginn, þar sem réttur dagsins er í aðalhlutverki. „Hún er lærður matartæknir, sem hentar vel í heita matinn í hádeginu,“ bendir Betúel á.

Laufey útskýrir að matartæknar séu sérhæfðir í að elda í stórum skömmtun, svo sem fyrir mötuneyti. Hún vann áður á Hulduhlíð og vakti þar talsverða athygli fyrir uppskriftir sem hún deildi með landsmönnum. Það skilaði henni tilnefningu sem manneskja ársins á RÚV árið 2022. Hún eldaði á Randulfssjóhúsi í fyrrasumar. „Við höfum talað um það í mörg ár að það væri gaman að vera með okkar eigin rekstur,“ segir Betúel.

Bakgrunnur hans er að hafa unnið sem pizzabakari á stað sem rekinn var um hríð í félagsheimili Eskfirðinga, Valhöll. Stakar pizzasneiðar yfir daginn er meðal þess nýja í Sjoppunni. Þau hafa líka sínar sérpizzur, til dæmis er ein með wasabi-sósu.

Fyrstu smassborgararnir á Austurlandi


Annað aðalsmerki eru fyrstu smassborgararnir á Austurlandi. Til að gera þá er kjötið lamið í þunnar sneiðar á heitu járni. Þessir tveir ólíku kraftar gera það að verkum að fitan lemst úr kjötinu en helst samt í borgaranum sem gerir hann safaríkari en ella.

„Þessir hamborgarar eru sérstaklega gerðir fyrir okkur hjá Kjarnafæði Norðlenska. Við notum feitara kjöt en vanalega sem þýðir að borgararnir verða sérstaklega safaríkir. Við ákváðum að stíla inn á þá. Í ferðum okkar suður til Reykjavíkur höfum við prófað smassborgarastaði til að finna hvað við vildum,“ útskýrir Laufey.

Fleira hefur vakið lukku síðan þau tóku við. „Við gerum flestar sósurnar okkar frá grunni. Fólk pantar þær sérstaklega. Við erum líka farin að smyrja samlokur og langlokur. Þannig verða þær ódýrari og ferskari heldur en ef þær kæmu að alla daga.

Við finnum líka að það koma fleiri í hádeginu þegar við auglýsum að það sé Laufeyjarbrauð. Það er brauð sem ég haf bakað og selt reglulega, meira að segja farið norður til Akureyrar til þess. Fólk kemur hingað til að spyrja eftir því og ég baka þegar tími er til,“ segir hún.

Sjoppan


Þau völdu nýtt nafn á reksturinn, Sjoppan. Eldra heiti, KR-ÍA, vísaði til aðdáunar eigendanna á samnefndum íþróttafélögum. Betúel og Laufey eiga taugar á þær slóðir. Hann ólst upp í Vesturbænum. Hún er uppalin í Borgarnesi og móðir hennar af Akranesi. Þau völdu þó að breyta nafninu.

„Þetta var þeirra. Hér tala flestir um að fara út í sjoppu, hví ekki að nota það. Það er bara ein sjoppa hér og við skráðum hana sem sjoppuna í símunum okkar. Þetta gekk því fullkomlega upp,“ segja þau.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.