Nýr kaffi- og veitingastaður opnar í Kaupvangi á Vopnafirði í dag
Lífið snýst um að grípa tækifærin þegar þau gefast og það gerði hin írska Jane Kavanagh-Lauridsen þegar hún heyrði að veitingastaðurinn USS Bistró í Kaupvangi myndi loka í nokkra mánuði yfir vetrartímann. Þar opnar síðar í dag fyrsta flokks kaffihús og ýmislegt matarkyns í boði líka.
Staðurinn heitir Kaffihúsið 690 sem vísar til póstnúmers Vopnfirðinga og staðurinn verður rekinn fram á næsta vor þegar aðstandendur USS bistró snúa aftur úr sjálfskipuðu leyfi. Til að byrja með hyggst Jane hafa opið og kaffi og kósíheit í boði fimmtu-, föstu- og laugardaga og sjá hverju fram vindur en utan þess tíma verður hægt að leigja salinn og halda þar hvers kyns einkaviðburði
„Ég ætla að bjóða upp á góðan ferskeldaðan mat föstudagskvöld og bröns á laugardögum. Þess utan fyrirtaks kaffi og kökur þann tíma sem opið verður og ég vona innilega að heimafólk og gestir sýni áhuga og komi í heimsókn. Þetta er pínulítið draumaverkefni og aðeins fyrir góða hjálp frá Vopnafjarðarhreppi, USS bistró og Six Rivers Iceland sem mér tókst að koma þessu á laggirnar með stuttum fyrirvara. Það getur meira en vel verið, ef viðtökur verða góðar, að ég reyni með einhverjum hætti að halda áfram lengur en ég hef aðstöðuna.“
Kaffihús 690 opnar fyrsta sinni klukkan 16 í dag og þar munu gestir geta fengið sér í svanginn fram til mars á næsta ári þegar USS bistró opnar á nýjan leik.
Jane Kavanagh að gera klárt á nýja staðnum áður en dyrnar opnast gestum fyrsta sinni. Mynd: Aðsend