
Ófært út á Dalatanga í þrjár vikur – Myndband
Mæðgurnar á Dalatanga í Mjóafirði fengu í gær sendan póst og aðrar vistir í fyrsta sinn í þrjár vikur. Ófært hefur verið bæði á sjó og landi. Ljósavél hefur verið keyrð þar í viku eftir að rafmagnslínan þangað slitnaði. Þær leysa úr öllum þessum aðstæðum.„Það er dálítið síðan við höfum fengið jafn mikinn snjó. Yfirleitt er ekki snjóþungt hérna á tanganum en við höfum þurft að girða ofan á girðingarnar hjá okkur til að kindurnar og hestarnir labbi ekki út.
Vegurinn hefur verið algjörlega ófær og leiðinlegt í sjóinn, þar til í gær að loks róaðist aðeins,“ segir Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir, sem býr á Dalatanga með móður sinni, Marzibil Erlendsdóttur.
Aðalheiður birti í gær myndband á Facebook sem sýnir þær taka á móti fyrstu sendingunni af vistum í þrjár vikur. Áætlunarbáturinn Björgvin gengur á milli Neskaupstaðar og Brekkuþorps í Mjóafirði tvisvar í viku, en það getur verið snúnara að koma vörum út á Dalatanga.
Í gær lagði báturinn úti á tanganum og skipstjóri hans, Sævar Egilsson, sigldi á gúmmíbáti inn í litla vík skammt frá Dalatangabænum. Þannig er farið að á veturna.
Rafmagnslaust í viku
En þótt Aðalheiður tali um póstferð er hefðbundinn póstur minnst af því sem skipað er upp úr gúmmíbátnum, til dæmis nokkrir olíubrúsar. „Rafmagnslínan til okkar frá Seyðisfirði slitnaði frá mastri á tveimur stöðum fyrir viku. Síðan höfum við keyrt ljósavélina og við þurftum að olíu og síur fyrir hana. Það er víst mikil ísing á línunni og erfitt að laga hana þannig við vitum ekki hvað þetta varir lengi en við höfum næga díselolíu til næstu tveggja mánaða.“
Aðrar hefðbundnari vistir bætast við. „Við höfum nægan mat en okkur var farið að laga í það sem ekki er hægt að geyma lengi, eins og ferska ávexti.“
Upp úr víkinni er nokkuð bratt og kafsnjór þannig þungt væri að bera vistirnar upp og niður. Þær eru þess vegna settar í gamlan saltpoka sem er bundinn með löngum köðlum aftan í traktor. Sá er uppi á vegi og dregur stóra pokann upp úr víkinni. „Þetta voru einhverjir tugir kílóa í gær en pokinn hefur oft verið þyngri. Það er gott að draga hann á snjóum, það er verra þegar það er autt og hann festist í þúfum. Þetta er mjög hentug lausn.“
Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti jólatréð
Ýmsar lausnir hafa verið hafa verið notaðar við flutninga til og frá Dalatanga í gegnum tíðina. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti þangað vistirnar fyrir síðustu jól. Það kom reyndar ekki til af góðu, Aðalheiður veiktist af lungnabólgu og þurfti á sjúkrahúsið í Neskaupstað. Þann dag var ekki fært eftir öðrum leiðum.
Þyrlan fór til baka með vistir, meðal annars jólatréð, í Dalatanga. Bróðir Aðalheiðar og sambýliskona hans fóru líka með til að vera með Marzibil yfir jólin. „Það var öllu mokað upp í þyrluna sem fannst. Áhöfnin hafði gaman af þessu.“
Ferðin var nýtt vel, meðal annars til sigæfinga og farið var með fólkið á Dalatanga með í þá ferð. „Þetta var víst mikið ævintýri – verst að ég missti af þessu!“ segir Aðalheiður.
Af Aðalheiði er það að frétta að hún fékk lyf á sjúkrahúsinu og komst yfir í Brekkuþorp með bátnum eftir stutta dvöl. Hún var þar í fimm daga áður en hún komst heim á aðfangadag. „Þá kom loks gott veður, en ég þurfti að ganga helminginn af leiðinni, 6 kílómetra. Þetta var ekki auðvelt eftir veikindin, við getum sagt ég hafi verið mjög þreytt. Ég fór þetta á viljastyrknum, ég ætlaði mér heim fyrir jólin.“