Opnaði sína eigin hársnyrtistofu í Eiðaþinghá
Edda Ósk Gísladóttir, hársnyrtir og hönnuður, opnaði síðasta haust hárgreiðslustofuna Klipp & Co. að heimili sínu á Davíðsstöðum í Eiðaþinghá á Fljótsdalshéraði.Edda Ósk starfaði lengi vel sem hárskeri á stofu á Egilsstöðum og um tíma á leikskóla þar í bæ. En það var í löngu fæðingarorlofi hennar sem hugmyndin kviknaði um að opna sína eigin litlu stofu og þar með ráða nokkuð sínum eigin tíma.
„Það er hér við heimilið húsnæði sem passaði afar vel fyrir litla stofu með einum stól eða svo og helstu græjum öðrum sem við notum. Við fórum í að innrétta það og gera huggulegt og þar tek ég á móti öllum sem til mín sækja.
Viðtökurnar hafa verið meira en góðar því frá opnun hefur eiginlega verið meira að gera en ég ætlaði mér í besta falli. Sérstaklega í desember var setið um alla tíma en ég kvarta ekki því það er dásamlegt að fá slíkar viðtökur.
Hingað er að sækja fólk alla leið frá Seyðis- og Eskifirði, margir frá Egilsstöðum og fjöldinn allur af sveitungum hér í kring. Það eru ótrúlega margir sem vita orðið af mér hér.“
Auk hárgreiðslustofunnar er Edda Ósk með litla verslun í anddyrinu, „Anddyrið Boutique“ með ýmis konar snyrti- og tækifærisgjöfum sem nágrannarnir og sveitungar framleiða og selja.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.