Opnuðu ferðaþjónustu í gamalli rútu á Seyðisfirði

Hingað til hefur ferðafólk á Seyðisfirði ekki haft úr mörgu að velja ef hugmyndin er að kynnast dásemdum fjarðarins sjálfs og næsta nágrennis. Það breyttist í vor þegar þrír félagar opnuðu þar sína eigin ferðaþjónustu og það í gamalli rútu í þokkabót.

Eastfjords Adventures er afsprengi samvinnu félaganna Dušky Merčák, Michael Novotny og Ingva Arnars Þorsteinssonar en þeir lengi vel átt þann draum að bjóða ferðafólki og smærri hópum upp á ýmis konar ferðir um Seyðisfjörðinn sem státar af ýmsum merkum og fallegum stöðum víða.

Drauminn gerðu þeir svo að veruleika fyrr á þessu ári eftir að hafa undirbúið starfsemina um rúmlega eins árs skeið.

Ein allra fyrsta hindrunin sem þeir vissu að þyrfti að yfirstíga fljótt og vel að sögn Ingva var hvar koma ætti starfseminni fyrir. Lítið sem ekkert atvinnuhúsnæði er eða hefur verið laust í bænum um langa hríð. Þá stöðu þekktu félagarnir vel og höfðu því opinn huga fyrir öllu.

Svo vel vildi til að þeir fregnuðu af eldri rútu einni sem verið var að taka úr umferð annars staðar á Austurlandi. Skipti engum togum að félagarnir létu slag standa, keyptu rútuna sem leit mætavel út og er gangfær enn, og breyttu henni í æði sérstaka ferðaskrifstofu sem stendur á hinum besta stað við upplýsingamiðstöðina á hafnarsvæðinu.

Þangað inn eru allir velkomnir til að kynna sér starfsemina og fjölbreyttar ferðirnar sem í boði eru. Eastfjords Adventures bjóða meðal annars jeppaferðir um Seyðisfjörð og Mjóafjörð, göngu- og snjóþrúguferðir og hjólaferðir á rafhjólum svo fátt eitt sé nefnt en smærri hópar geta einnig látið klæðskerasauma ferðir eftir áhuga og smekk. Þá eru félagarnir auðvitað með Norðurljósaferðir að vetrarlagi og vita upp á hár hvar best er að vitna slíkt sjónarspil úr Seyðisfirðinum.

Viðtökurnar verið æði góðar hingað til, þeir fengið fínar einkunnir á samfélagsmiðlum, sem miklu skiptir í þessum bransa, og félagarnir strax farnir að skoða að auka ferðaúrvalið á næsta ári.

Dušky, Michael og Ingvi fyrir utan ferðaskrifstofuna fyrr í sumar. Rútan fer ekki framhjá nokkrum farþega sem stígur frá borði úr þeim fjölda skemmtiferðaskipa sem leggjast að í Seyðisfirði né heldur öðrum gestum sem skoða sig um í bænum. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.