Rithöfundar koma til að fylgja eftir bókum um Austurland

Rithöfundar frá Austurlandi sem eru að senda frá sér bækur um Austurland verða á ferðinni til að kynna þær um helgina og lesa upp úr þeim. Benný Sif Ísleifsdóttir kynnir nýja skáldsögu sem gerist á Mjóafirði meðan Logi Kristjánsson og Ólöf Þorvaldsdóttir skrifa minningar sínar frá snjóflóðunum í Neskaupstað.

Bók Ólafar og Loga nefnist „Fjallið í fangið“ og segir frá minningum þeirra frá snjóflóðunum. Logi var þá bæjarstjóri í Neskaupstað, hafði tekið við þeirri stöðu 1973 og gegndi henni fram til 1984. Ólöf var einnig vel tengd í samfélaginu og ritstýrði meðal annars vikublaðinu Austurlandi. Þau kynna bók sína í Beituskúrnum á laugardag milli klukkan 15 og 17.

Benný Sif kemur frá Eskifirði og sendir í ár frá sér sína fimmtu skáldsögu sem ber heitið „Speglahúsið“. Sagan gerist á Mjóafirði eftir að Rósa, miðaldra hárgreiðslukona, leggur á skærin á hilluna og flytur þangað til að koma á fót óvenjulegri ferðaþjónustu þar sem sótt er í gamlar minningar úr fjölskyldu hennar og firðinum. Í tilefni útkomu bókarinnar var Mjófirðingum borðið til útgáfuhófs nýverið.

Benný Sif er á hringferð með öðrum rithöfundi, Ásu Marin, sem kynnir söguna „Hittumst í Hellisgerði.“ Snjólaug sér fram á einmanaleg jól eftir að barnsfaðir hennar ákveður að eyða þeim erlendis og tekur dóttur þeirra með sér. En Snjólaug sér ráð út úr því – og setur sér það markmið að finna sér kærasta fyrir aðfangadag.

Þær eiga stífa dagskrá fyrir höndum, verða í Faktorshúsinu á Djúpavogi klukkan 14 á laugardag og Beljanda á Breiðdalsvík klukkan 17. Á sunnudag klukkan 17 verða þær á Hótel Hildibrand í Neskaupstað, á mánudag klukkan 16 í Bókasafninu á Reyðarfirði og 18 á Sumarlínu á Fáskrúðsfirði.

Ferð þeirra lýkur á þriðjudag með þremur upplestrum, þar af tveimur á Eskifirði. Klukkan 13 verða þær í Valhöll og 20 í Randulfssjóhúsi en þess á milli á Bókasafninu á Egilsstöðum klukkan 17.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.