Þróttur í úrslit
Þróttur Neskaupstað tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki þegar liðið sigraði Reykjavík 3-1.
Norðfjarðarliðið byrjaði betur og vann fyrstu hrinu 15-25 eftir að hafa verið undir í byrjun. Í annarri hrinu höfðu þær yfirburði í fyrstu en Reykjavíkurliðið át upp forystuna og gat unnið hrinuna. Eftir að liðin höfðu skipst á forystunni náði Norðfjarðarliðið loks að vinna 29-31. Þriðja hrinan spilaðist svipað, nema eftir að hafa tekið leikhlé 7-14 undir snéri Reykjavíkurliðið dæminu við og vann ana 25.18. Fjórða hrinan var nokkuð örugg í höndum Þróttar Neskaupstað sem vann 18-25.
„Fyrstu tvær hrinurnar voru góðar en það virðist einhver bölvun fylgja okkur í fjórðu hrinu. Við töpum henni alltaf,“ sagði Kristín Salín Þórhallsdóttir, fyrirliði Þróttar eftir leikinn í kvöld. Hún átti engar skýringar á hvað hefði gerst í annarri og þriðju hrinu þegar liði missti í tvígang niður yfirburðastöðu. „Ég á sjálf eftir að átta mig á hvað gerðist. Við urðum kannski stressaðar þegar við leyfðum þeim að komast í gang. Mér fannst við ekki vera í vandræðum með uppgjafirnar þeirra í kvöld eins og fyrir viku og réðum vel við stökkuppgjafirnar hennar Lilju.“
Erla Rán Eiríksdóttir var ekki með liðinu í kvöld en Erla Snædís Sveinbjörnsdóttir, sem ekki hefur leikið með liðinu í tvö ár og nánast ekkert æft í vetur, fyllti skarð hennar og gerði það vel.
„Hún var hetjan okkar í kvöld. Hún peppar okkur upp, leyfir okkur ekki að detta niður. Hún er stór og sterk og skorar sinn skerf af stigum.“
Í úrslitum mætir liðið væntanlega HK. Miðað við það yrði fyrsti leikurinn í Kópavogi á miðvikudagskvöld. „Þær eru með mjög gott lið. Sex góða byrjunarliðsmenn og sex sterkar stúlkur á bekknum. Við þurfum að vera með allt okkar í lagi til að vinna þær. Miglena er meidd á öxl og á erfitt með að taka á móti boltanum. Annar leikurinn verður á Norðfirði eftir viku. Við ætlum ekki að leyfa þeim að taka á móti bikarnum þá. Við ætlum að gera það.“