RÚV og Videó-Flugan kveiktu kvikmyndaáhugann

Anna Karín Lárusdóttir hlaut nýverið tvenn Edduverðlaun fyrir stuttmyndina „Sætur“ auk þess sem hún hlaut sérstaka viðurkenningu þar sem uppgötvun ársins. Anna Karín er alin upp á Egilsstöðum í nágrenni við myndbandaleiguna Video-Fluguna, sem hafði mikil áhrif á stelpu með kvikmyndaáhuga.

„RÚV og Kiddi videófluga (Kristinn Kristmundsson, eigandi leigunnar) eiga stóran þátt í mínum kvikmyndaáhuga. Ég veit að þau eru fleiri sem ólust upp á Egilsstöðum sem tengja við hvort tveggja. Það var ekkert mikið að gera þegar maður ólst upp á Egilsstöðum en það var eitthvað við að koma inn til Kidda og sjá spólur þar upp um alla veggi. Maður var pínulítill en rekkarnir náðu lengst upp.

Ég bjó þarna rétt hjá, þurfti yfir eina götu og það tók mig 15 sekúndur. Ég og vinir mínir fórum þá leið ansi oft. Síðan vorum við í einn og hálfan tíma inni á leigu við að velja spólu og tala við Kidda um bara eitthvað. Ég held hann eigi sitt í því kvikmyndagerðarfólki sem hefur komið frá Egilsstöðum.

Það var alveg hægt að leigja spólur á fleiri stöðum en það var eitthvað við þessa leigu. Það var líka allt önnur stemming hjá Kidda heldur á þessum stórum leigum eins og Snælandsvídeói fyrir sunnan. Þetta var eitthvað svo heimilislegt.

Á RÚV voru alltaf fjölskyldumyndir eftir kvöldmat á föstudögum. Ég tók þær upp á spólur og átti orðið töluvert safn. Ég áttaði mig samt aldrei á að þetta væri eitthvað sérstakt, ég hélt bara að allir hefðu áhuga á kvikmyndum,“ segir Anna Karín um uppvöxtinn á Egilsstöðum.

Sumarstörfin sýndu möguleikana


Hún flutti 17 ára með móður sinni og stjúpföður suður til Reykjavíkur, kláraði stúdentsnám við MH og hélt þaðan áfram í kvikmyndanám. „Ég var orðin 22-23ja ára þegar mamma, sem er námsráðgjafi, sagði mig að ég gæti orðið góður leikstjóri. Þá vissi ég ekkert hvað leikstjóri gerði og það er kannski fyrst núna sem ég er farin að átta mig á því.“

Áður hafði hún samt áttað sig á að skapandi starf væri það sem hún sæktist eftir. Möguleikinn að komast í skapandi sumarstarf í vinnuskóla þáverandi Fljótsdalshéraðs skipti hana máli. „Emilía (Antonsdóttir Crivello) stýrði því og hún var alltaf að pota í mig og ýta mér áfram. Að eignast slíka fyrirmynd breytti því að ég áttaði mig á að ég gæti unnið sem listamaður.“

Þetta varð til þess að Anna Karín vildi gefa til baka inn í samfélagið. Þess vegna stóð hún fyrir stuttmyndanámskeið í Sláturhúsinu sumarið 2020. „Ég vildi kveikja áhuga á ungu fólki hér á kvikmyndagerð.“

Mynd um heim intersex-fólks


Tvær stuttmyndir eftir Önnu Karín hafa vakið nokkra athygli. Sú fyrri „XY“ kom út árið 2019 og var í raun skólaverkefni. Í henni segir frá Lísu og upplifanir hennar af því að vera intersex. Sú mynd hlaut viðurkenningu á Stockfishhátíðinni. Hún byggir á reynslu tveggja náfrænka hennar frá Egilsstöðum sem eru intersex.

„Ég átti að gera stuttmynd á þriðju önn í Kvikmyndaskólanum. Ég hafði þá unnið mikið með fjölskyldunni minni og intersex-hópnum í gleðigöngunni. Ég var þarna að átta mig í fyrsta sinn á hvað intersex væri og hvað slíkir einstaklingar þurftu að ganga í gegnum, til dæmis innan heilbrigðiskerfisins.

Mér fannst þetta áhugavert en líka góð og mikilvæg saga. Fyrst ég var að fara að gera þessa mynd þá vildi ég nýta tækifærið til að segja hana. Ég fékk leiðsögn frá frænkum mínum og myndin byggir því að einverju leyti á þeirra reynslu.“

Myndin var sýnd á kvikmyndahátíðum erlendis og vakti nokkra athygli. „Ég veit að hún er notuð í kennslu erlendis því ég fæ annað slagið fyrirspurnir um leyfi til notkunar. Ég segi já því hún er líka opin á netinu. Alls staðar þar sem ég hef fylgt henni eftir hafa skapast miklar umræður. Intersex er samt komið meira í umræðuna heldur en fyrir tíu árum, þá vissi fólk eiginlega ekkert um það.“

„Sætur“, eða „Felt Cute“ fékk einnig verðlaun á Stockfish auk þess að vera valin besta stuttmyndin og besta barna- og unglingamyndin á Edduverðlaunum í vor. Þar segir frá ellefu ára dreng sem prófar sig áfram með föt og farða systur sinnar þegar hann er einn heima. Hlutverk kynjanna og kynvitund er Önnu því ofarlega í huga.

Anna Karín er farin að huga að sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Hún vonast til að Edduverðlaunin hjálpi henni áleiðis á þeirri vegferð. „Mér fannst eins og heimurinn væri að bjóða mig velkomna. Ég vissi ekkert af viðurkenningunni fyrir uppgötvun ársins og varð því hissa því þau verðlaun voru tilkynnt á undan hinum. Ég var búinn að búa mig undir um að þurfa kannski að fara einu sinni upp á svið en þetta sló mig út af laginu.“


br>

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.