Sá fram á aðgerðaleysi að vetrarlagi og opnaði sitt eigið sláturhús
Þótt Sláturfélagi Vopnfirðinga hafi verið slitið fyrir ári er enn til staðar slátrun í fjórðungnum. Skúli Þórðarson, fyrrum framkvæmdastjóri félagsins og bóndi að Refsstað í Vopnafirði, opnaði í haust örsláturhús á eigin jörð.Sláturhúsið að Refsstað er hið eina í landinu sem rekið er á forsendum reglugerðar um lítil matvælafyrirtæki. Rúmlega 30 ára reynsla úr fyrra starfi nýttist Skúla þegar hann kom sláturhúsinu á laggirnar.
„Þetta er auðvitað bara fjárfesting í fyrirtæki og það lækkar kostnað töluvert að geta unnið mikið af vinnunni sjálfur. Ætli efniskostnaðurinn einn saman hafi ekki verið kringum tíu milljónir króna eða svo. En ég hef unnið þetta mikið sjálfur og fengið hjálp frá föður mínum og var með handlangara með honum í sumar á meðan ég var að sinna heyskapnum. Ég fór að huga að leyfum til rekstursins strax í febrúar og sótti um þau öll í réttri röð til að skila öllu á réttum tíma.
Ég vissi líka sem var að það tæki lengri tíma en almennt að kaupa og fá hingað frystitæki og annað nauðsynlegt til vinnslu. Slíkt tekur venjulega í kringum fimm vikur en nú um stundir er það meira kringum átta vikur. Öll tæki og tól þurfti því að panta mjög tímanlega og hafandi reynslu af því að byggja sláturhús þá vissi ég nokkuð vel hvernig allt þetta kerfi virkaði. Ég lenti þannig ekki í neinum töfum út af slíku. Ég byrjaði vissulega tveimur til þremur vikum seinna en til stóð vegna annarra anna en allt gekk upp fyrir sláturtíðina.“
Skúli vill þó gera gott betra en orðið er nú þegar með slátrun á sauðfé og folöldum. Vörur fyrirtækisins eru seldar undir merkinu Vopnfirskt gæðakjöt. „Það eru mörg tækifæri til staðar. Það væri gaman að gera farið að pakka beint og selja og það verkefni bíður vetrarins. Það er allur virðisaukinn í því að gera þetta sjálf með pökkun og beinni sölu. Það er okkar markmið að selja að minnsta kosti þriðjung kjötsins með því að pakka sjálf og vera þannig búin að leggja 40 til 50% ofan á vöruna í viðbót. Þannig fáum við háa álagningu til okkar, sem annars færi til annarra aðila.
Auðvitað kemur til aukinn kostnaður vegna auglýsinga og kynninga en það munar um slíkt. Með þeim hætti væri hægt að skapa grundvöll fyrir slíku sláturhúsi allan veturinn, sem hentar mér vel því ég hef meira en nóg að gera að sumarlagi.“
Mynd: Aðsend
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.