Skip to main content

Jurtadísin á Fáskrúðsfirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. des 2024 18:06Uppfært 09. des 2024 18:13

Sabina Helvida flutti frá stríðshrjáðri Bosníu og Hersegóvínu til Íslands fyrir um tuttugu árum. Hún hefur síðan komið sér fyrir á Fáskrúðsfirði þar sem hún rekur fyrirtækið Jurtadís, en Sabina framleiðir og selur handgerðar sápur og náttúrulegar snyrtivörur.

Ástríða fyrir náttúrulegum vörum varð að atvinnu


Sabina opnaði Jurtadís í byrjun árs 2024 eftir að hafa lengi þróað vörur úr náttúrulegum efnum. „Ég vaknaði bara einn morgun og þetta orð, Jurtadís, kom til mín,“ segir Sabina. Nafnið táknar ástríðu hennar fyrir plöntum og styrk hennar til að berjast fyrir eigin draumum.

Í versluninni býður hún vörur sem byggja á þekkingu hennar á jurtum. Hún hefur ræktað þessa þekkingu frá sér sem barn í Bosníu og bætt hana enn frekar á Íslandi. Þrátt fyrir að íslenskar jurtir séu ólíkar þeim sem hún þekkti að heiman, lærði hún að nýta þær í sínar vörur og tengja þannig tvö heimalönd saman.

Flótti frá stríði og nýtt upphaf á Íslandi


Sabina ólst upp í Bosníu á umbrotatímum þegar borgarastríð braust út í þáverandi Júgóslavíu. Hún ætlaði að hefja háskólanám í snyrtifræði í Dubrovnik í Króatíu, en stríðið lokaði landamærum og eyðilagði þær fyrirætlanir. „Við vitum hvað stríð felur í sér, daglegan ótta og baráttu fyrir lífinu,“ segir hún.

Árið 2003 flutti hún til Íslands ásamt eiginmanni sínum og tveimur dætrum í leit að betri framtíð. Fyrstu árin voru þó erfið. Tungumálið virtist óyfirstíganlegt, en Sabina lét ekki deigan síga og lærði íslensku með því að lesa barnabækur og taka þátt í íslenskunámskeiðum.

Þegar dóttirin greindist með krabbamein


Stærsta áskorunin í lífi Sabinu kom árið 2011 þegar eldri dóttir hennar, Belma, greindist með krabbamein í eitlum. Sabina var þá einstæð móðir og þurfti að takast á við erfiðleikana. Belma barðist við sjúkdóminn með lyfjameðferð og geislameðferð í marga mánuði. „Þetta var erfiðasta tímabil lífs míns,“ segir Sabina og bætir við að reynslan hafi gert dóttur hennar þroskaðri og sterkari.

Þegar fjölskyldan loks náði að jafna sig var ljóst að Sabina gæti ekki haldið áfram að vinna sem hársnyrtir vegna ofnæmis sem hún þróaði fyrir hárgreiðsluefnum.

Ný ástríða fyrir plöntulækningum


Þegar Sabina þurfti að hætta sem hársnyrtir snéri hún sér að fyrri áhuga á jurtum og náttúrulegum efnum. Hún hóf að framleiða snyrtivörur fyrir sig og fjölskyldu sína, og fljótlega fóru aðrir að biðja um vörur hennar. „Ég vissi að þetta gæti orðið eitthvað stærra,“ segir hún.

Sabina sameinar þekkingu sína á jurtum frá Bosníu og þeim sem hún hefur lært að nýta á Íslandi. Hún ferðast árlega til Bosníu til að tína plöntur, en tínir einnig íslensk fjallagrös og aðrar jurtir fyrir vörur sínar. „Sápurnar mínar eru í formi fjalla – tákn um þau tvö lönd sem ég tilheyri.“

Prjónaskapur sem hugleiðsla


Á Íslandi heillaðist Sabina af lopapeysum og lærði að prjóna, aðallega til að spara sér kostnaðinn við kaup á peysu. „Fyrsta peysan sem ég prjónaði var með hettu og rennilás – sú flóknasta,“ segir hún. Prjónaskapurinn varð einnig leið til að halda ró sinni á meðan dóttir hennar gekk í gegnum meðferð.

Jurtadís: Verslun og samfélagsmiðstöð


Jurtadís er ekki bara verslun, heldur staður fyrir fólk að koma saman. Sabina hefur útbúið kaffihorn þar sem viðskiptavinir geta sest niður, spjallað og fengið ráðgjöf um snyrtivörur. „Það er mér mikilvægt að fólk upplifi hlýju og að það sé velkomið,“ segir hún.

Þrátt fyrir að þurfa að uppfylla ýmsar kröfur og reglur lét Sabina ekki deigan síga. COVID-19 gaf henni tíma til að dýpka þekkingu sína í náttúrulegum snyrtivörum, sem hún hefur nýtt í vörulínu sína.

Sterk tengsl við bæði lönd


Þrátt fyrir að lífið á Íslandi hafi gefið henni nýtt upphaf, saknar Sabina ákveðinna hluta frá Bosníu. „Ég sakna loftslagsins, haustsins og matargerðarinnar,“ segir hún. En hún bætir við að einfaldleikinn og minni streita á Íslandi hafi kennt henni að takast á við lífið með jákvæðari hætti. „Hér upplifi ég vandamál sem ný verkefni sem hægt er að leysa.“

Mynd: Marko Umicevic

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.