Safna fyrir bíókerfi í Valhöll

Einungis vantar liðlega eina milljón króna upp á að hægt verði að kaupa og setja upp gott nútíma bíókerfi í félagsheimilinu Valhöll á Eskifirði. Söfnun vegna þessa hófst í vikunni.

Það er sjálfboðaliðahópurinn Vinir Valhallar sem að söfnuninni stendur en hópurinn hefur um tíma séð um rekstur félagsheimilisins og hefur það markmið helst að auka fjölbreytni í afþreyingu fyrir íbúa Eskifjarðar og nágrennis.

Ein hugmynd þeirra hefur gengið út á að hefja reglulegar bíósýningar í húsinu en sökum mikils kostnaðar við nýtt bíókerfi hefur það ekki reynst fýsilegur kostur. Hópnum bauðst þó fyrir skömmu að kaupa nýlegt notað kerfi fyrir um fjórar milljónir króna og þeim þegar tekist að fá styrk frá Fjarðabyggð auk vilyrða frá öðrum sem alls gerir um þrjár milljónir króna.

Nú leitar hópurinn til velunnara á svæðinu til að safna því sem upp á vantar en sú söfnun fer fram á Karolina-Fund og stendur út febrúarmánuð. Gangi allt upp gætu reglulegar bíósýningar hafist í Valhöll í lok mars eða byrjun apríl og stefnt að því að sýndar verði allra nýjustu kvikmyndirnar um svipað leyti og gert er í höfuðborginni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.