Sagnir um ísbirni á Austfjörðum
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. feb 2025 17:11 • Uppfært 19. feb 2025 17:16
Í haust var leitað að ísbirni í nágreni Laugarfells á Fljótsdalsheiði eftir tilkynningu ferðafólks. Enginn ísbjörn fannst og í í huga margra er hugmyndin um að ísbjörn geti komist svo langt inn í land fráleit. Sérfræðingur viðurkennir að í dag sé slíkt langsótt en þó ekki útilokað því staðfestar sagnir eru um ísbirni langt inni í landi.
Samkvæmt Náttúrufræðistofnun hafa um rúmlega 600 hvítabirnir sést á Austurlandi frá landnámi. Gerð er nokkuð skilmerkileg grein fyrir þeim í bókinni „Hvítabirnir á Íslandi“ eftir Rósu Rut Þórisdóttur frá árinu 2018.
Furðusagnir um ísbirni
Í bókinni er skráð þjóðsaga um að bjarndýr hafi komið heim að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá og drepið þar konu og nýfætt barn á meðan bóndinn brá sér af bæ til að sækja prestinn til að skíra barnið. Hann drap síðan dýrið á öxl utan við bæinn sem heitir Dýrsöxl.
Meiri trúnaður er lagður á sögu úr Desjarmýrarannál frá árinu 1621 um að dýr hafi komið með hafís sem lá úti fyrir Austfjörðum og gengið um Hérað. Annállinn segir að dýrin hafi verið 25 en það er talið ólíklegt.
Önnur saga frá sama ári segir að bjarndýr hafi drepið nær allt heimilisfólkið í Möðrudal. Fleiri þjóðsögur eru nefndar, eins og Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð um miðja 19. öld og aðra af Breiðdalsheiði. Sögur með svipuðum stefjum eru víðar um landið.
Bannað að skjóta ísbirni á sunnudögum
Vorið 1765 kom bjarndýr að bænum Snæhvammi í Breiðdal. Bóndinn drap dýrið og bjóst við hrósi sveitunganna en presturinn og einn hreppsstjóranna heimtuðu fimmtung kjötsins í fátækrasjóð þar sem bóndinn hefði brotið gegn banni um helgidagsveiðar. Konungur bætti bóndanum sektina.
Um 1819 eru sagnir af tveimur dýrum í Borgarfirði. Sagt er að smalamenn hafi fundið þau uppi í Dyrfjöllum. Árið 1840 er sagt að ísbirnir hafi verið vegnir á Vopnafirði og Berufirði og árið 1866 voru tvö dýr vegin í Breiðdal. Tveimur árum síðar kom dýr á land í Loðmundarfirði. Bændurnir þar drápu björninn með riffilskoti eftir talsverða viðureign.
Hafísár um 1880
Árið 1874 var mikið hafísár. Þá sáust dýr á Hellisheiði, við Heiðarsel í Hróarstungu og tvö við Brekku í Mjóafirði. Miklar sagnir eru skráðar um Mjóafjarðardýrin. Á Norðfirði sást dýr árið 1878. Landpóstur sagði frá tveimur hvítabjörnum sem hann sá á Möðrudalsöræfum undir 1880. Dýrin voru unnin daginn eftir í Öxarfirði. Tekið er fram að Skjálfandaflói hafi verið fullur af ís.
Árið 1881 sáust 12 dýr á Austurlandi. Sex á Fljótsdalshéraði, meira að segja upp í Hrafnkelsdal, tvö á Fáskrúðsfirði og síðan eitt á Loðmundafirði, Seyðisfirði, Norðfirði og loks nærri Djúpavogi. Mögulegt er talið að dýrið sem sást í Hrafnkelsdal hafi komið á land í Hornafirði. Það sást við Brú og var elt norður á Möðrudalsöræfi, án árangurs. Mikill hafís kom að landinu seint í janúar en flestar frásagnirnar eru síðan í febrúar og mars.
Næsta ár var einnig hafísár og sáust til að mynda þrjú dýr innst í Berufirði og annað í Loðmundarfirði, og hið þriðja í Húsavík. Nokkrum árum síðar náðist dýr á Glettinganesi og árið 1893 var dýr vegið á bæ í Borgarfirði.
Eftir þetta fækkar bjarndýrunum. Árið 1913 var bjarndýr skotið á Heyskála í Hjaltastaðaþinghá þann 15. júní. Í samtímaheimildum er talið líklegast að hann hafi komið um veturinn upp að Langanesi með hafísnum.
Ísbjarnarfeldurinn á Skriðuklaustri
Frostaveturinn mikla, árið 1918, sáust dýr víða á landinu Eitt kom á land í Mjóafirði og var skotið í Dalakjálka. Talið er mögulegt að það dýr hafi gengið yfir Norðfjarðarflóann því daginn áður sást til dýrs á Barðsnesi.
Kjötið af ísbjörnunum var gjarnan mikil búbót fyrir Íslendinga. Svo var einnig um dýrið frá Mjóafirði. Af því munu hafa fengist um 100 kg af kjöti sem sagt er hafa verið „eins og fínasta nautakjöt.“ Feldurinn hangir uppi í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri eftir að Gunnar Gunnarsson skáld eignaðist hann og gaf Minjasafni Austurlands. Tvennum sögum fer af hvernig skáldið eignaðist feldinn.
Ísbjörn á Norðfjarðarflóa vorið 1968
Síðasti ísbjörninn á Austurlandi sást 7. apríl árið 1968. Fólk í strandferðaskipi sá dýrið úti fyrir Sandvík á siglingu sinni frá Eskifirði til Norðfjarðar. Mikill hafís var þar og ferðin tók mun lengri tíma en vanalega.
Ísbjörn, sennilega sá sami, sást aftur 18. og 20. maí þetta sama ár. Í seinna skiptið var hann á firðinum nærri Hellisfjarðarnesi og hélt hann til suðurs áður en hann hvarf mönnum sjónum. Norðfjarðarflóinn var þá fullur af hafís. Norðfirðingar munu hafa verið nokkuð skelkaðir og óttast að björninn gengi á land.
Ólíklegt – en ekki útilokað
Af þessum frásögnum má ráða, að þótt fráleitt virðist við fyrstu sýn að ísbjörn sé á rölti innarlega á Fljótsdalsheiði, þá er það ekki útilokað. Ekki er svo langt þaðan í Hrafnkelsdalinn eða Brú, jafnvel niður í Berufjörð.
„Það er í sjálfu sér ekkert sem hindrar þessi dýr í að ganga nokkra tugi kílómetra. Þau ferðast lengri vegalengdir á ísnum og fara hratt yfir,“ segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, doktor í spendýravistfræði hjá Náttúrufræðistofnun. Inn í þetta vantar þó að ísbirnir koma yfirleitt upp að Austfjörðum á hafísárum. Þær aðstæður hafa ekki verið fyrir hendi í haust
Nánar aðspurð um hvað þyrfti að gerast til að ísbjörn kæmist austur á Fljótsdalsheiði svarar Ester að líkurnar á því hafi vissulega minnkað með árunum. Ólíklegt sé að þeir kæmust fram hjá akvegum, sveitabæjum eða ferðafólki í dag, sama hvort þeir kæmu að Austfjörðum eða annars staðar. En þótt möguleikinn sé fjarlægur þá er hann samt fyrir hendi.
Ísbirnir – sem voru ekki ísbirnir
Ekki er þó nýtt að tilkynnt sé um ísbirni, sem reynast ekki vera það. Um miðjan maí árið 1915 birtu íslensku fréttablöðin frásögn af því að á Seyðisfirði hefði verið skotið hreindýr sem var á sundi í firðinum þar sem menn töldu það vera ísbjörn. Kirkjugestir og fermingarbörn á Vestdalseyri sáu dýrið stuttlega og létu vita. Hreindýr voru á þessum tíma alfriðuð en skyttunum var sleppt á þeim forsendum að þær töldu sig vera að skjóta ísbjörn!
Mynd: Gunnarsstofnun
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.