Salmond matarveislan áfram hluti af Hammond hátíð Djúpavogs
Margir á Djúpvogi eru þegar farnir að telja niður dagana í næstu Hammond-hátíð þorpsins sem hefst í næstu viku. Formleg dagskrá hátíðarinnar sneisafull af forvitnilegum viðburðum en ekki síður eykst sífellt fjöldi svokallaðra utandagskrárviðburða kringum hátíðina sjálfa. Einn slíkur er Salmond veislan.
Salmond er heiti yfir matreiðslukeppni laxasláturhúss Búlandstinds á staðnum en hún var fyrst haldin á síðasta ári og er bæði keppni í góðlátlegu tilliti en ekki síður tækifæri fyrir kunna og ókunna matreiðslusnillinga til að láta ljós sitt skína í eldamennskunni með laxarétti í forgrunni.
Lax, lax, lax og aftur lax
Til marks um hversu nýstárlegir og fjölbreyttir réttir voru á borð bornir fyrir ári síðan má nefna Hammond Almond Salmond, Laxa súgæ, Laxa tartar a la Lefever auk Veislupakka Milenu Gutowska sem innihélt meðal annars laxa-grænmetisplatta, Djúpavogs dumplings með laxi, feta og spínati og laxapoppkorn.
Milena starfar einmitt í verksmiðju Búlandstinds en þar hefur mikið verið gert til að kynna forvitnilega matargerð frá ýmsum hornum heimsins enda kemur starfsfólkið þar frá sjö mismunandi löndum og innandyra reglulega haldnir matarmenningardagar.
Öllum er þó heimil þátttaka í Salmond sem að þessu sinni fer fram sjálfan Hammond-daginn á laugardeginum 27. apríl en áhugasamir þurfa að skrá sig eigi síðar en á sunnudaginn kemur.
Einn þeirra laxarétta sem boðið var upp á í fyrstu Salmond keppninni fyrir ári. Mynd Salmond