Samtölin hefjast yfirleitt á spurningum um af hverju við erum í svona skrýtnum fötum

Tveir þýskir farandiðnaðarmenn eru þessa dagana á ferð um Austfirði. Þeir tilheyra samfélagi sem byggir á rúmlega 800 ára gömlum hefðum og reglum. Útbúnaður þeirra er yfirleitt það sem vekur fyrst athygli og forvitni, sem skiptir þá máli því samskipti eru lykilatriði á þeirra ferðalögum.

„Við þurfum að vera í þessum fötum alltaf þegar við erum frammi fyrir almenningi. Við erum að tala um svörtu flauelsbuxurnar, flauelsjakkann, vestið okkar, hvíta langermabolinn og hattinn.

Við erum með tvö sett, annað fyrir vinnu, hitt til að vera í utan hennar,“ segja þeir F.V.D. Philipp Stueckl og F.V.D. Renz Hepp. Skammstöfunin framan við nöfn þeirra stendur fyrir það félag farandiðnaðarmanna sem þeir tilheyra. Þeir ferðast eftir reglum þýskra farandiðnaðarmanna eða „Wandergesellen“ og ná aftur til ársins 1200.

Fá ekki að koma nærri heimahögunum í þrjú ár


Iðnaðarmennirnir eru þrjú ár og einn dag á flakki og mega á þeim tíma ekki koma nær heimili sínu en 50 kílómetra. Þeir fara af stað eftir að hafa lokið sveinsprófi og eiga á þessum tíma að finna sér vinnu annars staðar. „Hefðin verður til þegar það voru engir iðnskólar heldur aðeins hægt að læra af öðrum meisturum. Þess vegna varðstu að ferðast um, finna aðra meistara og læra af þeim. Þau skilyrði eru ekki til staðar en þessi hefð gefur enn tækifæri til að ferðast og læra,“ útskýrir Philipp en þeir eru báðir trésmiðir.

Þeim sem ferðast um á þennan hátt hefur fækkað síðustu ár. Nákvæmur fjöldi þeirra liggur ekki fyrir en gjarnan er hermt að um 500 manns frá Þýskalandi, Sviss og Austurríki séu á ferðinni hverju sinni. Stundum er fólk eitt á ferðinni, stundum með öðrum í einhvern tíma. Þannig er Philipp á leið aftur til Þýskalands á næstunni þar sem hann á að kenna væntanlegum ferðalangi áður en hann leggur af stað í sína ferð en Renz er að íhuga boð sem hann hefur fengið hérlendis.

Eignast nýja fjölskyldu


„Ég hef alltaf haft gaman að ferðast. Ég varð hugfanginn af því áður en ég fór að læra smíði. Ég hitti annan farandiðnaðarmann sem sagði mér frá hefðinni og plantaði hjá mér hugmyndinni. Þú ert í raun aldrei einn á ferð því þú hittir alltaf aðra ferðalanga. Vissulega geturðu ekki farið heim til fjölskyldunnar en þú eignast nýja sem hugsar um þig,“ segir Renz.

Þeir sem ljúka árunum þremur tilheyra félagi farandiðnaðarmanna það sem eftir er. Á vegum hennar eru til dæmis haldnar samkomur til að styrkja tengslin. Félagarnir segja áhugavert að heyra sögur þeirra sem voru á ferðinni áður. „Ég hitti einn sem var á ferðinni fyrir 70 árum, fljótlega eftir síðari heimstyrjöldina. Hans saga var mjög áhugaverð. En það er gott að hitta aðra því þeir gefa þér góð ráð,“ segir Philipp.

Mega ekki vera með farsíma


Á ferðum sínum er ferðaiðnaðarmönnunum ætlað að útvega sér vinnu til að læra af meisturum með að tala við fólk. Í samfélagi nútímans getur það verið snúið því þeir mega ekki hafa með sér farsíma. Þá eru fleiri reglur, eins og að þeir mega ekki notast við almenningssamgöngur eða gista á gististöðum, heldur húkka sér far og fá boð um gistingu á ferðum innan Þýskalands. Philipp og Renz segja það ákveðinn kost því þannig komist þeir í tæri við fólk sem oft útvegi þeim störf. Eins heyra þeir um tækifæri frá öðrum sem eru á ferðinni.

Þeir komu til Íslands um miðjan janúar. Renz hafði hitt íslenskan puttaferðalang sem sagði þeim frá landinu sínu og bauðst til að hjálpa þeim hvenær sem þeir kæmu. Þeir keyptu flugför en ekki vildi betur til en Íslendingurinn svaraði aldrei símanum. Þeir lentu því á landinu og vissu lítið hvert þeir áttu að snúa sér. Þótt reglurnar um ferðamáta og gististaði séu rýmri utan heimalandsins gildir símabanni áfram.

Af hverju eruð þið svona klæddir?


En þótt fötin þeirra séu ekki þau hlýjustu, þá reynast þau vel til að kynnast fólki og þau redduðu félögunum hérlendis. „Við höfum hitt mikið af góðu fólki hér. Við áttum leið fram hjá byggingasvæði þar sem verið var að smíða úr tré. Við heilsuðum fólkinu þar og sögðust vera þýskir trésmíðir. Fólkið spurði hvers vegna við værum svona klæddir og við sögðum þeim söguna. Yfirmaðurinn sagði okkur að koma daginn eftir og athuga hvort það væri eitthvað fyrir okkur að gera. Þannig fengum við fyrsta starfið okkar hér. Sá næsti sem réði okkur spurði okkur líka út í klæðnaðinn og sagði okkur svo að kærastan ætti hús sem hún væri að vinna í,“ segir Renz.

Nánar um klæðnaðinn útskýra þeir að í Þýskalandi viti allir að þarna séu iðnaðarmenn á ferðinni. Þýskir iðnaðarmenn klæðist líka gjarnan sambærilegum fötum, flauelsbuxurnar séu sterkar og auðvelt að þvo þær og þær eru víðar þannig að sag fer síður niður í skóna. Á þeim eru líka fjöldi vasa til að koma fyrir verkfærum, pennum og öðru.

En það eru líka fleiri hefðir í fötunum. „Tölurnar á fötunum skipta miklu máli. Við erum með átta tölur á vestunum sem tákna átta tíma vinnu á dag. Þær eru sex á jakkanum, fyrir sex vinnudaga í viku. Á hvorri ermi eru þrjár tölur, fyrir árin á ferðinni og í sveinsnáminu,“ segir Renz. Skilyrði er að þessi föt séu alltaf sjáanleg utan frá, en þeir mega vera í öðrum undir, til dæmis er Philipp með íslenska ullarpeysu. „Við megum ekki fara í neitt utan yfir.“

Ferðalögin ekki ætluð til að hlaupast á brott frá skuldbindingum


Samkvæmt hefðunum mega farandverkamennirnir aldrei vera lengur en þrjá mánuði á sama stað. Sjaldnast er einn svo lengi á sama staðnum. „Við viljum ferðast um og sjá heiminn. Ef vistin er orðin þægileg þá er kominn tími til að fara aftur af stað. Við höfum ekki verið lengur en viku á hverjum stað hérna,“ segja þeir.

Sá sem vill fá slíkan farandiðnaðarmann í vinnu þarf að útvega honum fæði og húsnæði og semja um þóknun en algengur misskilningur er að þeir vinni frítt. „Fólk verður að hafa uppi á okkur og athuga hvort við séum lausir. Það er mikil spurn eftir hvers kyns iðnaðarmönnum alls staðar um þessar mundir.“

Skilyrði er að farandiðnaðarmennirnir séu frjálsir menn við upphaf ferðar. Í því felst að vera ógiftir, barnlausir, með hreint sakavottorð og skuldlausir. „Það á ekki að nota þetta til að hlaupast á brott frá neinu. Fólk verður líka að vera undir þrítugu því þá er hugurinn frjálsari en síðar,“ útskýrir Renz.

Bannað að vera fáviti


Þeir viðurkenna að ferðirnar geti verið krefjandi. Þar sem þeir séu símalausir geti þeir ekki hringt heim þegar þeim líði illa eða leitað á netinu að upplýsingum. Þannig hafi þeir lítið vitað um íslenska kerfið þegar þeir komu, því þeir höfðu ekki hitt neinn farandiðnaðarmann sem hafi verið hérlendis. Eins séu þeir í raun heimilislausir og þurfi því að vera tilbúnir að sofa við ýmiss konar aðstæður ef ekkert annað finnst.

En mikilvægasta reglan er um hvernig komið er fram þar sem þeir dvelja. „Þú verður alltaf að sýna af þér góða framkomu þannig að næsti farandiðnaðarmaður fái jafn góðar, ef ekki betri viðtökur. Það er bannað að vera fáviti,“ segja þeir að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.