Segir ekki um uppsagnir að ræða

Vegna fréttar um að starfsmönnum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í áhaldahúsum á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Norðfirði og Stöðvarfirði og skrifstofufólki á Norðfirði og Reyðarfirði hefði verið sagt upp fyrir helgina, hafði Helga Jónsdóttir bæjarstýra samband við vefinn. Segir hún að ekki hafi verið um uppsagnir að ræða heldur hafi föstum umframkjörum allra starfsmanna sveitarfélagsins verið sagt upp. Verði viðbótarkjör tekin til endurskoðunar með það að markmiði að lækka launakostnað um 10% og jafna kjör milli fólks. Helga segir markmiðið að ljúka endurskoðun allra fastasamninga í mars. Hún segir að áður en þessar aðgerðir voru kynntar starfsfólki hafi hún átt fundi með forsvarsmönnum stéttarfélaganna ; AFLs, FOSA og Starfsmannafélags Fjarðabyggðar.  ,,Ég varð ekki vör við annað en fullur skilningur væri á stöðunni og mönnum þætti sú leið sem fara á málefnaleg og gæta meðalhófs,“ segir Helga.

 fjaragbyggarlg.jpg

Bréf Fjarðabyggðar til starfsfólks:

 

26. febrúar 2009

 

Til þeirra starfsmanna Fjarðabyggðar

sem hafa föst viðbótarkjör

 Endurskoðun fastra kjara annarra en mánaðarlauna

Hér með tilkynnist að föstum kjörum þínum öðrum en umsömdum mánaðarlaunum er sagt upp miðað við 1. mars n.k.  Tekur uppsögn gildi 1. júní n.k. samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.  Föst viðbótarkjör geta falist í fastri yfirvinnu, vaktaálagi, yfirborgun, akstursstyrk og þóknun fyrir fundarsetu.  Uppsögnin tekur aðeins til viðbótarlauna ofan á mánaðarlaun en ekki umsaminna kjara samkvæmt kjarasamningi.

 Efnahagsþrengingar og lánsfjárskortur gera tilkall til hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins.  Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar þessa árs var gert ráð fyrir að útfærsla á 100 milljón kr. útgjaldalækkun yrði afgreidd við endurskoðun fjárhagsáætlunarinnar í mars/apríl.  Launakostnaður er langhæsti einstaki útgjaldaliður sveitarfélagsins og verður ekki undan því vikist að draga úr honum  Kjör starfsmanna til viðbótar föstum launum verða endurskoðuð og hefur stjórnendum verið falið að endurmeta og lækka viðbótarkjör. Í marsmánuði verður lokið við að leggja mat á þörf fyrir kaup á yfirvinnu, vaktakerfi verða endurskipulögð til hagræðingar, fastir bifreiðastyrkir leggjast af en greitt verður fyrir akstur samkvæmt akstursdagbók.  Greiðslur til starfsmanna fyrir að sitja nefndarfundi verða felldar niður. Markmið aðgerðanna er að lækka kostnað og auka skilvirkni.  Stjórnendum er gert að ljúka endurskoðun ráðningarsamninga og semja við starfsmenn að nýju fyrir 1. apríl n.k.   Aðgerðirnar nú taka til fjárhagsársins 2009 og gert er ráð fyrir að þær leiði að lágmarki til 10% lækkunar launaútgjalda.  Nánari grein er gerð fyrir málinu í hjálögðu bréfi bæjarráðs um endurskoðun fjárhagsáætlunar og lækkun útgjalda.  Það er von mín að starfsmenn sýni því skilning að við ríkjandi aðstæður í þjóðarbúskapnum verða sveitarfélögin að nýta tiltæk úrræði til útgjaldalækkunar.  

Helga Jónsdóttir

  

---

24. febrúar 2009

   Til stjórnenda hjá Fjarðabyggð  

Endurskoðun fjárhagsáætlunar – lækkun útgjalda

  

Efnahagsþrengingar nú kalla á lækkun útgjalda hjá Fjarðabyggð eins og öðrum í landinu.  Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar var samþykkt að hún skyldi endurskoðuð í mars og þá  lögð fyrir útfærsla á lækkun útgjalda ársins 2009 um a.m.k. 100 milljónir króna.  Bæjarráð hefur undanfarnar vikur farið yfir hagræðingarmöguleika á öllum sviðum.  Leitað er þeirra hagræðingarleiða sem síst skerða þjónustu og  minnst áhrif hafa á þau sóknarfæri til framtíðar sem  Fjarðabyggð býr blessunarlega að. 

Frá því atvinnuuppbyggingin hófs í sveitarfélaginu hefur það fjárfest í fjölda mannvirkja. Tekur það ekki síst til endurnýjunar skóla- og leikskólabygginga, íþróttamannvirkja, veitna, hafna og vega.  Sveitarfélagið hefur notið góðrar lánafyrirgreiðslu til að takast á við nauðsynlega uppbyggingu.  Það er því æði skuldsett en vert er að hafa í huga að reynslan staðfestir að áætlanir um vaxandi tekjur hafa gengið eftir.  Horfur eru því afar bjartar til lengri tíma.  Við núverandi aðstæður er fjármagnskostnaðurinn þó þungur baggi og mikilvægt að draga úr honum eftir því sem kostur er.  Farið hefur verið yfir allan rekstur sveitarfélagsins og jafnframt horft til þess hvaða eignir eru seljanlegar við núverandi aðstæður.  Ákveðið hefur verið að hagræða í stjórnsýslunni m.a. með því að fækka fundum og nýta símafundi í ríkara mæli.  Sameining innkaupa hjá sveitarfélaginu lækkar útgjöld til rekstrarvörukaupa. Með sama hætti er horft til annarra þátta þar sem útboð og verktaka gerir sameinuðu sveitarfélagi kleift að nýta fjármuni betur en áður var unnt.

Ekki er hjá því komist að lækka launakostnað sveitarfélagsins enda vegur hann u.þ.b. 64% af heildarútgjöldum bæjarsjóðs. Laun bæjarfulltrúa, nefnda og bæjarstjóra verða lækkuð sem og laun annarra stjórnenda í samræmdu launakerfi. Ekki verður greitt sérstaklega fyrir setu starfsmanna á nefndafundum.  Aksturssamningar verða endurskoðaðir og þeirri meginreglu fylgt að greiða aðeins útlagðan kostnað samvkæmt akstursdagbók.  Dregið verður úr yfirvinnu eftir því sem tök eru á og vaktkerfi endurskipulögð til að draga úr útgjöldum. Segja ber upp samningum um fasta yfirvinnu og álagsgreiðslur.  Stjórnendum í hverjum málaflokki ber að endurmeta og lækka yfirvinnumagn.  Þessar aðgerðir miða að því að samræma og jafna kjör meðal starfsmanna Fjarðabyggðar. Forstöðumaður mannauðsmála er ábyrgur fyrir framkvæmd þessara aðgerða ásamt sviðsstjórum en mikilvægt er að hafa eftirfarandi atriði í huga:

Laun bæjarfulltrúa lækka um 15%, bæjarstjóra um 10% og nefndarfulltrúa um 7,5%.

Þeir sem þiggja hæstu laun munu taka á sig meiri skerðingu fastra heildarlauna en þeir sem lægri laun hafa.  Standa ber vörð um kjör þeirra lægst launuðu. 

Aðgerðir verða samræmdar fyrir bæjarkerfið og jafnræðis gætt á milli starfsmanna og sviða eins og kostur er.  Framkvæmdin á að vera gegnsæ og ákvarðanir málefnalegar.

Samningum um fastar yfirvinnu- og álagsgreiðslur verður sagt upp fyrir 1. mars n.k.

Aðgerðir þessar taka til fjárhagsársins 2009.

 

Fyrir 1. mars verða send bréf til starfsmanna þar sem kjörum umfram kjarasamningsbundin kjör er sagt upp.  Janframt verður tilkynnt að stjórnendum hafi verið falið að ganga frá endurnýjun ráðningarsamninga þar sem ofangreindra markmiða er gætt.  Gert er ráð fyrir að stjórnendur og forstöðumaður mannauðsmála eigi fundi með einstökum starfsmönnum/starfsmannahópum til að útfæra nýja ráðningarsamninga og leitað verði samkomulags við starfmenn um að nýir samningar taki gildi sem fyrst og eigi síðar en 1. júní 2009.  Æskilegt er að fækkun fastra yfirvinnutíma taki gildi frá 1. mars og að lækkun verði þannig dreift á 10 mánuði.  Taki hún gildi frá 1. júní verði hún hlutfallslega meiri. Þak verður sett á yfirvinnuheimildir en við það miðað að heildarsparnaður vegna fastra launa m.v. 10 mánuði (mán.laun + föst yv.) verði a.m.k. 10%.

Launaútgjöld vegna álagsgreiðslna, útkalla, aukavakta og afleysinga þarf að rýna og einnig launaútgjöld sem byggjast á heimildarákvæðum kjarasamninga, svo sem vegna sérverkefna, launaðra námsleyfa og annars sambærilegs.  Orlof starfsmanna ber að skipuleggja þannig að sumarafleysingar verði aðeins í undantekningatilvikum. Kaup orlofsréttar verða ekki heimiluð nema um samningsbundinn rétt sé að ræða.  Uppsöfnun frítökuréttar verður óheimil nema brýna nauðsyn beri til.  Ekki verður heimilt að ráða í störf sem losna nema bæjarráð hafi fallist á beiðni hlutaðeigandi stjórnanda þar sem rökstutt er að verkefni verði ekki leyst með öðrum hætti.  Gerðir verða samningar um farsímanotkun starfsmanna til að draga úr kostnaði vegna hennar og ferðakostnaður verður lækkaður eftir föngum. 

Þessar mikilvægu hagræðingar- og aðhaldsaðgerðir eru tímabundnar og gert er ráð fyrir að þær verði endurskoðaðar eftir því hvernig fjárhagsstaða bæjarins þróast. Samráð hefur verið haft við forystumenn heildarsamtaka launþega og þeim kynntar fyrirhugaðar aðgerðir.

Á óvissutímunum framundan skiptir miklu að rekstur bæjarins sé hagkvæmur og skilvirkur og að útgjöldum verði haldið í lágmarki til að tryggja öryggi starfa og þjónustu.  Bæjarráð treystir á gott samstarf við stjórnendur og starfsmenn til að takast á við þessi mikilvægu viðfangsefni þannig að sveitarfélagið standi sterkt og öflugt til framtíðar.

  Bæjarráð Fjarðabyggðar 

Guðmundur Þorgrímsson                   Guðmundur Rafnkell Gíslason                    Valdimar O. Hermannsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.