Sjóminja- og smiðjusafnið er afrakstur ástríðufulls safnara

Haldið var upp á það í Safnahúsi Neskaupstaðar að þann 21. júní voru 100 ár liðin frá fæðingu Jósafats Hinrikssonar, sem Sjóminja – og smiðjusafnið í húsinu er kennt við. Í ár eru einnig 20 ár liðin frá því að safnið hans opnaði fyrst í húsinu sem einnig er 100 ára í ár.

„Það var í kringum árið 2000 sem Magni Kristjánsson lagði fyrst fram tillögu um safnið í bæjarstjórn. Þá var stofnuð um það nefnd. Árið 2001 var tekið við því og safnið flutt austur um haustið.

Ég man við fengum mann sem fór suður og pakkaði því saman í gáma. Safnið var mikið vöxtum, jafnvel meira en menn reiknuðu með. Ég tók á móti því hér, 22 gámum og ég var með tvo menn á lyfturum sem voru frá morgni til kvölds að koma því inn í gamla frystihúsið þar sem það var geymt fyrst,“ rifjar Jón Björn Hákonarson upp, en hann var á þessum tíma kynningarfulltrúi Fjarðabyggðar með safnamálin á sinni könnu.

Um leið var ráðist í endurgerð safnahússins sem byggt var árið 1924 sem verslunar- og pakkhús en gegndi síðan ýmsum hlutverkum. Jón Björn segir neðstu hæð hússins hafa verið hrörlega þegar ráðist var í endurbæturnar en hinar tvær hafa verið í ágætu ásigkomulagi.

Fengnir voru leikmyndasmiðir til að aðstoða bæjarsmiðinn við að breyta því í safn, stundum með misjöfnum árangri því leikmyndasmiðirnir særðu á stundum stolt smiðsins með að gefa glænýjum panel gamaldagsáferð. „Það tók stundum á að halda friðinn. Smiðurinn kom einn morguninn brjálaður yfir að húsið hefði verið eyðilagt en í lokin sá hann hvað allt passaði vel saman.“

Safnið opnaði fyrst árið 2004 með munum úr safni Jósafats sem er að mestu á miðhæðinni. Árið 2006 var safn Tryggva Ólafssonar, myndlistarmanns, opnað á neðstu hæðinni og sama ár Náttúrugripasafnið í Neskaupstað á þeirri efstu.

Hver var Jósafat Hinriksson?


Jósafat fæddist í Reykjavík en flutti ungur með foreldrum sínum austur til Neskaupstaðar en faðir hans, Hinrik Hjaltason, byggði upp eldsmiðju í Neskaupstað. Eftirgerð hennar er á safninu og hún er nokkuð sérstök.

„Það var talin hætta á aurskriðum eða snjóflóðum á því svæði sem hún reis á í bænum. Þess vegna tók hann á það ráð að hafa norðurvegginn ekki sléttan heldur í laginu eins og skipsstefni til að kljúfa hugsanleg flóð,“ segir Ólöf Þóranna Hannesdóttir, barnabarn Jósafats.

Jósafat lærði vélvirkjun og vélstjórn. Hann fór snemma á sjóinn og var meðal annars á bátum frá Norðfirði, Goðanesi og Hrafnkeli. Lengst af var hann vélstjóri á síðutogaranum Neptúnusi, sem gerður var út frá Reykjavík og þess vegna fluttu hann og kona hans með börn sín suður.

Hann færði sig í land og byrjaði fyrst með smiðju í bílskúrnum heima hjá sér. Þar smíðaði hann blakkir, dekkrúllur og fleira við góðan orðstír. Reksturinn vatt upp á sig, úr varð Vélaverkstæði J. Hinrikssonar sem loks byggði sitt eigið verkstæði í Súðarvogi. Þar hannaði Jósafat og framleiddi toghlera, ásamt öðru sem þurfti í fiskveiðar.

En Jósafat hafði mikinn áhuga á öllu sem tengdist sjómennsku og hann gætti að því að hafa húsið sem hann byggði stórt enda var hann þá byrjaður að safna. „Hann byrjaði snemma að safna ýmsum hlutum. Þeim fjölgaði smám saman og þess vegna ákvað hann að búa til safn úr þeim. Fyrst hélt hann því sem áhugamáli fyrir sig og sína nánustu en með byggingu verkstæðisins í Súðarvogi gat hann líka búið til aðstöðu fyrir safnið. Þetta var þá orðið stærðar safn og fjölbreytt, með litlum og stórum tækjum. Hann var með það opið fyrir almenningi auk þess að reyna að nota það fyrir viðburði eins og mögulegt var.“

Stemmingin það mikilvægasta við safnið


Jósafat lést í ársbyrjun árið 1997. Eftir hans dag ákvað fjölskyldan að færa safnið Fjarðabyggð að gjöf. Hún segir ánægju meðal afkomenda Jósafats með hvernig hafi tekist til í Safnahúsinu í Neskaupstað.

„Mér finnst mikilvægt að söfnin okkar séu lifandi og opin almenningi til að fræða fólk og gefa því tækifæri til að sjá og upplifa það sem þau geyma. Hlutirnir hér, eins og á fleiri söfnum, segja sögu einstaklinga, atvinnusögu bæjanna og sögu landsins.

Hér er búið að blanda saman nokkrum söfnum þar sem safn Jósafats flæðir um allt hús. Þótt það sé fyrst og fremst á miðhæðinni eru munir víðar í húsinu. Meðal annars má sjá hverfisteina, sem hann eignaðist úr hvalstöðvum í nágrenninu á neðstu hæðinni. Þannig hefur hér í Safnahúsinu náðst að draga fram skemmtilega og fjölbreytta sögu. Síðan er það þetta gamla umhverfi í húsinu sem safnmunirnir njóta sín mjög vel í.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.