Skip to main content

Skammt stórra högga milli á skíðasvæðinu í Oddsskarði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. mar 2025 11:04Uppfært 28. mar 2025 11:13

Að segja að meira líf hafi sjaldan verið á skíðasvæðinu í Oddsskarði en nú um mundir er líklega of vægt til orða tekið. Þar byrjaði stórmót á íslenskan mælikvarða á þriðjudaginn var og í dag hefst ekki minna mót í brekkunum þegar Skíðamót Íslands verður þar sett.

Ekki lítið afrek hjá sjálfboðaliðunum í Skíðafélagi Fjarðabyggðar að undirbúa og halda utan um tvö stórmót í einni og sömu vikunni.

Hið fyrra, Atomic Cup, laðaði til sín sjálft íslenska skíðalandsliðið auk töluverðs fjölda erlendra keppenda sem komu jafn langt að og frá Kína til að setja undir sig skíðin í brekkum Oddsskarðs.

Gekk allt 100% og vel það á fyrsta mótsdegi Atomic Cup á þriðjudaginn var þegar veðrið var kostulegt og færið með því besta en aðeins súrnaði á miðvikudeginum þegar mikið rigndi og dimm þoka faðmaði skarðið meira og minna allan daginn. Tókst þó að ljúka mótinu þó nokkrum keppendum sem Austurfrétt ræddi við þætti afar miður hvað veðrið hafði mikil áhrif seinni daginn.

Góðu heilli hefur aðeins bæst í snjóalög í Oddskarði síðan þá en í dag hefst svo sjálft Skíðalandsmót Íslands og þátt tekur flest af besta skíðafólki landsins. Kjörið tækifæri fyrir áhugasama að fylgjast með okkar fremsta skíðafólki en keppt verður frá deginum í dag fram á sunnudag í svigi, stórsvigi og samhliðasvigi.

Veðurspáin almennt góð næstu daga og bætt gæti enn í brekkurnar í nótt og aðra nótt ef gildandi spá Veðurstofu Íslands gengur eftir. Mynd Skíðafélag Fjarðabyggðar