Skoða að færa tónleikana út í góða veðrið

Tónlistarfólkið Soffía Björg Óðinsdóttir og Pétur Ben. eru saman á ferð um landið en þau vinna hvort að sinni plötunni. Egilsstaðir eru viðkomustaður þeirra í kvöld og til skoðunar er að halda tónleikana utandyra enda yfir 20 stiga hiti á svæðinu.

„Við eigum að spila á Tehúsinu kl. 21 í kvöld en Halldór (Warén) er með könnun um gangi hvort fólk vilji gera þetta að útitónleikum. Við erum til í allt,“ segir Soffía, sem sagðist vera að máta sumarkjóla þegar Austurfrétt heyrði í henni.

Hún og Pétur eru ásamt Magnúsi Tryggvasyni Eliassen, trommuleikara og Fríðu Dís Guðmundsdóttur, bassaleikara á ferð um landið til að kynna nýja tónlist sem þau eru að byrja að taka upp. Þau gefa síðan upp sitt hvora plötuna í haust.

„Við ákváðum að fara gömlu leiðina að ferðast fyrst um með tónlistina áður en farið er í hljóðver. Þá erum við heit þegar upptökur byrja.

Með þessu fáum við rétta orku í hvert lag. Ég hef gefið út tvær plötur án þess að spila þær fyrst á tónleikum. Ef maður fer fyrst í hljóðverið og svo að spila þá breytist oft orkan í lögunum. Með þessu fáum við rétta stemmingu í hvernig við syngjum og spilum lögin saman,“ útskýrir Soffía.

Þau hafa unnið saman í að verða tíu ár en þau sækja bæði í hljóm bandarískrar þjóðlagatónlistar. Soffía segir að fyrri hluti tónleikanna sé helgaður lögum Péturs en hennar séu ráðandi í seinni hlutanum. Skilin eru ekki mikil, Pétur er upptökustjóri á væntanlegri plötu hennar og þau semja hluta laga sinna saman.

Þau eru búin að vera í viku á ferðinni og ljúka hringnum um næstu helgi. „Þetta hefur gengið vel, andinn í hópnum er góður og ágætlega mætt á tónleikana. Við höfum skemmt okkur það vel að við værum til í nokkurra vikna ferð í viðbót.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.