Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði er andkapítalískt samfélagsverkefni
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. jan 2025 17:55 • Uppfært 22. jan 2025 17:56
Gamla frystihúsinu á Stöðvarfirði hefur verið umbreytt í Sköpunarmiðstöð. Vincent Wood og Una Sigurðardóttir leiða hana í dag en þau hafa ásamt öðrum komið upp margvíslegri vinnuaðstöðu fyrir listafólk í húsinu sem á ný er orðið hjarta í samfélaginu.
Frystihúsið lokaði árið 2005. Ekkert annað blasti við en niðurrif árið 2011 þegar Rósa Valtingojer og Zdenek Patak sáu möguleika í að breyta því í menningarmiðstöð. Þau fengu síðan Vincent og Unu með sér í lið. Þau bjuggu á Írlandi en voru til búin að breyta um umhverfi. „Ég vildi komast frá Írlandi og byrja nýtt líf,“ segir Vincent. Þau fluttu með sendibíl fullan af búnaði, tilbúin að byrja upp á nýtt.
Byrjunin var þó ekki auðveld. Húsið var í niðurníðslu, fullt af gömlum vélum og rafkerfið ónýtt. „Við byrjuðum frá grunni – rafmagn, pípulagnir og hita,“ útskýrir Vincent. Fyrsta árið lifðu þau með takmarkaðan hita og unnu sleitulaust að því að gera húsið vistvænt og nothæft.
Stúdíó Síló
Í Sköpunarmiðstöðinni hefur meðal annars verið innréttað hljóðver sem nú dregur tónlistarfólk að frá öllum heimshornum. „Þegar maður gengur inn í Stúdíó Síló, þá er eins og maður sé kominn til Los Angeles,“ segir Vincent stoltur. Hljóðverið, með sitt analog-tæki og ótrúlegan hljómburð, er bæði framúrskarandi tæknilega og fagurfræðilega.
Vendipunkturinn var þegar sérfræðingurinn John H. Brandt lagði hönd á plóg við hönnun hljóðversins. Nú má finna allt frá sjaldgæfum hljóðgervlum til upptökubúnaðar sem gerir staðinn einstakan.
„Það tekur langan tíma að byggja stúdíó þegar þú átt nánast engan pening, bara saklausar hugmyndir,“ segir Vincent. Meðfram því að taka upp tónlist hannaði Vincent líka og lagaði hljóðfæri í verkstæði sínu. „Ef einhver sjaldgæfur gamaldags hljóðgervill bilar, gæti ég verið sá eini á Íslandi sem getur lagað hann.“
Vincent rifjar upp hvernig áhugi hans á raftækjum hófst þegar hann var barn. „Við skemmdum græjur og ég varð að gera þær við,“ segir hann og hlær. Þessi tækniáhugi hefur fylgt honum alla ævi og stuðlað að því að hann skapaði bæði verkstæði og hljóðver.
Nýsköpun í miðstöðinni
Frá upphafi hefur Sköpunarmiðstöðin verið sjálfseignarstofnun þar sem enginn getur keypt eða selt eignarhlut. „Þetta verkefni var frá upphafi sett upp sem mjög andkapítalískt. Það á sjálft sig,“ útskýrir Vincent. Markmiðið var að skapa vettvang þar sem listamenn gætu unnið án þess að markaðsvæða hugmyndir sínar. Þessi hugmyndafræði hefur heillað bæði listafólk og þá sem vilja stuðla að nýsköpun í samfélaginu.
Stuðningur frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð hefur skipt sköpum fyrir verkefnið. Með fjármagni frá sveitarfélaginu tókst að skipta um þak á byggingunni og klæða hana með málmplötum. „Án þess stuðnings hefði þetta ekki verið hægt,“ viðurkennir Vincent. Verkefnið hefur þó oft staðið frammi fyrir fjárhagslegum áskorunum, þar sem kostnaður við efni og vinnu hefur aukist hratt. „Stundum gátum við bara lokið við hluta af verkefni vegna verðhækkana,“ bætir hann við.
Sköpunarmiðstöðin hefur orðið miðpunktur nýsköpunar á svæðinu. Kaffibrennslan Kaffi Kvörn í eigu Łukasz Stencel er eitt dæmi. Hann flutti frá Reykjavík til Stöðvarfjarðar með fjölskyldu sína og setti upp rekstur í miðstöðinni. Auk þess eru í undirbúningi ný verkefni, eins og matvælaframleiðsla í viðurkenndu eldhúsi og nýtt vinnurými fyrir Steinasafn Petru. „Við viljum styðja fólk við að láta drauma sína rætast,“ segir Vincent.
Markmið fyrir framtíðina
Vincent og Una stefna á að Sköpunarmiðstöðin verði fjórða menningarmiðstöðin á Austurlandi. Fyrir utan að styrkja fjárhag miðstöðvarinnar opnar það möguleika á að ráða starfsmenn og samræma starfsemina betur. „Við viljum sjá þetta verkefni standa á eigin fótum og verða varanlegt framlag til samfélagsins,“ segir Vincent.
Þrátt fyrir erfiðleika á veturna segist Vincent kunna vel við sig á litlum stað. „Ég hef aldrei búið í borg og það hefur líklega hjálpað mér að aðlagast hér,“ segir hann. Hann vonast til að Sköpunarmiðstöðin verði áfram hjarta menningar á svæðinu og laði að sér listafólk frá öllum heimshornum.
Mynd: Marko Umicevic
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.