Sár og reiður út í Bónus
Ungur maður frá Reyðarfirði er bæði sár og reiður eftir viðskipti við Bónus á Egilsstöðum í fyrradag. Hann keypti sér tvo kassa af orkudrykk frá Euroshopper, því við vöruna stóð að hún væri á tilboðsverði, 500 ml á 79 krónur og raunhæf kjarabót. Í hillunni stóðu einvörðungu 250 ml dósir og taldi hann því sýnt að Bónus væri að bjóða tvær slíkar á 79 krónur. Var honum sagt af verslunarstjóra að um prentvillu væri að ræða í tilboðinu og fékk engu til hnikað. Í dag voru líka komnar 500 ml dósir í hilluna. Þær kosta samkvæmt uppgefnu hilluverði nú 149 krónur og 250 ml dósirnar 79 krónur.
,,Þetta er ekkert í fyrsta skipti sem ég lendi í einhverju svona“ segir Þórólfur Valsson. ,,Ég er orðinn mjög þreyttur á þessu og maður er alltaf að reka sig á að verið er að svína á fólki með verðlagningu í verslunum. Til dæmis um þetta er varan sem ég keypti í Bónus; 250 ml orkudrykkur sem samkvæmt stórum tilboðsmiða átti að kosta 79 krónur hverjir 500 ml og þetta sögð raunhæf kjarabót. Orkudrykkurinn var til í 250 ml dollum og 79 krónurnar hljóta því að gilda fyrir tvær dollur, samtals 500 ml. Þeir voru ekki að auglýsa hverja 250 ml dós á þessu verði.“
Þegar Þórólfur borgaði tvo kassa, samtals 48 dósir við kassann, kom í ljós að hann var rukkaður um 79 kr fyrir hverja dós. Hann sagðist vilja fá tvær dósir fyrir það verð en ekki eina. Hann segist hafa rifist heillengi við verslunarstjóra í búðinni, sem sagt hafi að um prentvillu væri að ræða. Þá heimtaði Þórólfur að fá tilboðsblaðið með sér út versluninni því hann vildi að þetta færi lengra. Eftir nokkurt þjark hafi hann loks fengið blaðið. ,,Maðurinn vildi frekar fá slæmt umtal heldur en að standa við það sem verslunin var þó að auglýsa stórum stöfum. Það er stórmerkilegt.“
Þórólfur segist oft versla í Krónunni á Reyðarfirði og fyrir komi að hilluverð og uppgefið verð vöru á kassastrimli beri ekki saman. Þar sé þó aldrei neitt mál að fá leiðréttingu sinna mála. ,,Maður fær vöruna á uppsettu verði og svo fara þeir og breyta hilluverðinu ef það er vitlaust. Maðurinn í Bónus var hins vegar ekki tilbúinn í neitt slíkt. Ég endaði á því þegar ég gekk út frá honum að segjast koma aftur og sækja tvo kassa af þessum orkudrykk þegar ég væri búinn að koma mínu frá mér.“
Þegar Austurglugginn kannaði verðið á orkudrykknum í dag var sem fyrr segir búið að breyta verðmerkingum og 250 ml dósir verðmerktar á 79 krónur og 500 ml dósir á 149 krónur.