Stríðsárasafnið opnar aftur eftir hlé en gestir óvenju fáir

Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði opnaði á ný í byrjun júní eftir að hafa verið lokað allt síðastliðið sumar í kjölfar mikilla skemmda á safnahúsum þess í miklu óveðri í september 2022. Aðsóknin verið afar róleg hingað til en skýringar á því geta verið margvíslegar.

Með umsjón á safninu yfir opnunartíma hefur fólk úr Félagi eldri borgara á Reyðarfirði sem hefur sinnt þeim starfa um mörg ár og njóta á móti góðs framlags sveitarfélagsins til félagsstarfs síns. Sama fyrirkomulag er víðar í Fjarðabyggð og almennt mikil ánægja með þann háttinn á bæði af hálfu sveitarfélagsins en ekki síður eldri borgara sem þátt taka.

Stöllurnar Þórunn Margrét Jóhanns- og Mörtudóttir og Guðlaug Guðmundsdóttir buðu gesti velkomna þegar Austurfrétt bar að garði fyrir skömmu og þó þar vanti nú tvo af þeim gömlu herbröggum sem staðinn prýddu fyrir óveðrið vantar ekkert upp á gestrisnina.

Róleg byrjun

Aðspurð hvernig opnunin hafi gengið þetta árið segir Þórunn Margrét allt hafa gengið snurðulaust en miður sé hve fáir gestir hafi sýnt sig það sem af er sumri.

„Það verður að segjast eins og er að það hefur verið afskaplega rólegt svona fyrstu vikurnar og mun rólegra en verið hefur undanfarin ár. Sjálf kann ég engar sérstakar skýringar nema hugsanlega veðrið sem hefur ekki verið upp á það besta. En einnig getur verið að lokun safnsins á síðasta ári hafi spilað hér inn í og fólk átti sig ekki á að opnað hefur verið aftur. Kannski vantar bara að auglýsa meira eða betur.“

Flestir gestir erlendir

Yfirgnæfandi fjöldi þeirra sem safnið sækja eru erlendir ferðamenn og þó safnið á Reyðarfirði sé ívið minna og fábrotnara en fjöldi stríðsárasafna sem finnast víða í Evrópu og vestanhafs er það ekki smæðin sem vekur áhuga útlendinganna.

„Nei, þeir spá ekki mikið í því heldur er það sagan sem þeim finnst forvitnilegust. Þar allra mest hve margir hermenn voru hér staðsettir á sínum tíma en um fjögur þúsund hermenn voru hér á einum eða öðrum tíma stríðsárin. Það þykir þeim merkilegt með tilliti til staðsetningarinnar en ekki síður hve mikill fjöldinn var miðað við fólksfjöldann í þorpinu á þeim tíma. Hér bjuggu þá milli 300 og 400 manns svo það segir sig sjálft hversu mikil áhrif vera þeirra hafði hér um slóðir.“

Þórunn Margrét og Guðlaug Guðmundsdóttir voru á vaktinni í Stríðsárasafninu þegar Austurfrétt bar að garði og formaður Félags eldri borgara á Reyðarfirði, Borgþór Guðjónsson, rak líka inn nefið til að halda þeim smá félagsskap. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.