Sumarið hafið á franska safninu

Frítt er inn á safnið Frakkar á Íslandsmiðum á Fáskrúðsfirði í tilefni alþjóðlega safnadagsins og slegið upp safnabingói. Sumaropnun safnsins hófst í vikunni og í morgun var þar í heimsókn stór hópur nemenda frá Frakklandi og Neskaupstað.

„Við áætlum að hér komi um 100 gestir á dag yfir sumartímann. Frakkar eru fjölmennastir þeirra sem heimsækja safnið, hvort sem um er að fólk sem kemur á eigin vegum eða í hópum.

Íslendingum fjölgaði í Covid-faraldrinum og þeir hafa haldið áfram að koma. Síðan fá gestir hótelsins frítt á safnið og þeir nýta sér það,“ segir Fjóla Þorsteinsdóttir, safnstjóri.

Frakkar í skólaheimsókn Neskaupstað


Sumaropnun safnsins hófst á miðvikudag, en hún er frá 15. maí til 30. september ár hvert. Í morgun komu þangað nemendur í 9. bekk frá Chāteaurox í Frakklandi og jafnaldrar þeirrar úr Nesskóla, sem hafa verið gestgjafar franska hópsins í vikunni í gegnum evrópskt ungmennaskiptiverkefni. Hópurinn taldi um 50 manns með kennurum.

„Það var stórkostlega gaman. Frönsku krakkarnir þekktu ekki mikið til sögunnar en höfðu fengið stutt ágrip. Skólarnir úr Fjarðabyggð hafa verið duglegir að koma hingað í vorferðir þannig þau þekkja safnið vel.

Frönsku kennararnir voru yfir sig hrifnir. Þeir bjuggust við að koma inn á safn þar sem gengið væri milli borða en svo sögðum við frá sögunni, frá frönsku skútunum sem hefðu farist hér og sjómönnunum sem hefðu drukknað og síðan sáu þau nöfnin. Það sást vel hvernig þau upplifðu þetta.

Hópurinn sameinaðist í söng við kapelluna. Frönsku krakkarnir sungu sinn þjóðsöng og íslensku krakkarnir okkar,“ segir Fjóla.

Safnabingó á safnadegi


Söfn víða um landið taka þátt í alþjóðlega safnadeginum á morgun. Frítt verður inn á safnið á Fáskrúðsfirði af því tilefni og í boði sérstakt safnabingó fyrir börn og ungmenni. „Það eru 12 myndir á spjaldinu. Þeim er raðað upp í þeirri röð sem hlutirnir eru á safninu þannig að á leiðinni í gegn finna börnin þá. Þegar þau spila spjaldinu fá þau blöðru í verðlaun.“

Gestunum fjölgar síðan jafnt og þétt þegar á líður sumarið. Fjóla segir áhuga á sögunni, bæði hjá heimafólki og gestum. „Í fyrra sumar fékk 7-10 ára börn héðan frá Fáskrúðsfirði með mér í lið, þau lærði að heilsa og kveðja á frönsku og þegar rúturnar renndu í hlað þá stóðu þau utan við safnið og veifuðu franska fánanum. Það vakti mikla athygli og við viljum halda þessu áfram því það eru börnin sem taka við sögunni.“

Myndir: Frakkar á Íslandsmiðum/Fjóla Þorsteinsdóttir

franska safnid bingo

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.