Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar hefst í kvöld

Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar í kvöld með tónleikum Tríós Akureyrar. Brottfluttir Austfirðingar eru meðal þeirra sem mynda hryggjarstykkið í sveitinni. Fleiri sveitir með austfirskar tengingar koma þar fram í sumar.

Tríóið flytur sambland af þjóðlögum víða að úr heiminum m.a. frá Mexíkó, Finnlandi, Belgíu og Færeyjum en nafn tónleikanna er „Landablanda“. Lögin verða tengd saman með þema sem gengur eins og rauður þráður í gegnum dagskrána og áheyrendur fá þannig mynd af tónlist sem vex úr jarðvegi ólíkra menningarheima og endurspeglar á sama tíma fjölbreytileika mannkyns og fegurðina í fjölbreytileikanum.

Tríó Akureyrar samanstendur af Austfirðingnum Erlu Dóru Vogler söngkonu, Skagfirðingnum Jóni Þorsteini Reynissyni harmonikkuleikara og Eistlendingnum Valmari Väljaots fiðlu-, harmonikku-, orgel-, píanó- og allskonar leikara. Þórður Sigurðarson orgel-, píanó- og harmonikkuleikari verður með í för en hann er Austfirðingum að góðu kunnur og starfaði um margra ára skeið sem organisti og kórstjóri í Neskaupstað. Öll eru þau þekkt fyrir fyrsta flokks tónlistarflutning og líflega framkomu.

Tónleikar á hverju miðvikudagskvöldi


Í allan júlí verður svo boðið upp á tónleika á hverju miðvikudagskvöldi. Í næstu viku mun dúóið Ingibjargir, sem samanstendur af þeim Ingibjörgu Fríðu Helgadóttur og Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttir, tónskáldi úr Fellabæ, leika lög af nýrri plötu en í sinni tónlist blanda þær saman ýmsum stefnum og straumum s.s. djassi, klassík og þjóðlagatónlist.

Annar dúett, Frigg, kemur svo austur um miðjan mánuð. Í honum eru Íris Björk Gunnarsdóttir og Ólína Ákadóttir og þær ætla halda tónleika undir yfirskriftinni „Mig dreymdi“. Á efnisskránni er tónlist eftir Jórunni Viðar, Lili Boulanger, Edvard Grieg og Claude Debussy. Hljómsveitin Umbra kemur svo og flytur íslensk þjóðlög í eigin útsetningum og frumsamið efni þar sem texti er sóttur í miðaldabókmenntir en yfirskrift tónleikanna er „Umbra og arfurinn“.

Listamaðurinn Dundur (Guðmundur Höskuldsson) úr Neskaupstað slær svo botninn í sumartónleikaröðina og flytur, ásamt hljómsveit, lög af plötunni sinni „Tilvera“ sem kom út í fyrra og vakti þó nokkra athygli fyrir skemmtilegan „bræðing“ úr ýmsum áttum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.