SÚN gefur bókina um snjóflóðin í Neskaupstað

Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) gefur um þessar mundir bók af Útkallsbók Óttars Sveinssonar sem fjallar um snjóflóðin í Neskaupstað í desember árið 1974. Minningarstundir verða haldnar á föstudag bæði eystra og í Reykjavík til að minnast atburðanna fyrir 50 árum.

„Stjórn SÚN var að velta fyrir sér hvað félagið gæti gert til að minnast þessara atburða í ár og þá opnaðist tækifæri til að kaupa bækur, sem til voru á lager, fyrir sanngjarnt verð,“ segir Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN.

Á meðan birgðir endast fá allir viðskiptavinir SÚN-búðarinnar í Neskaupstað sem vilja frítt eintak af bókinni. Hún verður einnig gefin á samverustund sem Norðfirðingafélagið hefur boðað til í Reykjavík á föstudag.

Óttar Sveinsson, sem í rúm 30 ár hefur gefið út bækur um björgunarstörf á Íslandi, sendi árið 2012 frá sér bókina „Útkall – sonur þinn er á lífi“ sem fjallar um snjóflóðin í Neskaupstað og afleiðingar þeirra. Bókinni var vel takið enda voru í henni í fyrsta sinn skrásettar frásagnir sumra þeirra sem lentu í eða komu að snjóflóðunum sem féllu 20. desember árið 1974 og kostuðu tólf mannslíf.

Guðmundur segir viðtökurnar við gjöf SÚN hafa verið góðar, þótt bókin sé þegar til á mörgum heimilum í Neskaupstað. „Það hafa bæði vaxið upp nýjar kynslóðir sem ekki eiga bókina en líka hefur margt fólk flutt til Neskaupstaðar síðan bókin kom út sem ekki á hana.“

Minningarstundir verða á föstudag bæði í Neskaupstað og í Reykjavík þar sem þá eru 50 ár liðin frá snjóflóðunum. Eystra verður minningarstundin í Norðfjarðarkirkju klukkan 17:00 en syðra í Fella- og Hólakirkju klukkan 20:00.

Þótt í ár séu sérstök tímamót segir Guðmundur að minningin um snjóflóðin og þau sem fórust liti alltaf aðventuna hjá Norðfirðingum. „Fólk talar um og rifjar upp þessa atburði á hverju ári í aðdraganda jóla.“

Helga B. Hjálmarsdóttir, starfsmaður SÚN-búðarinnar, afhendir Þorgerði Malmquist eintak af Útkallsbókinni. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.