Svavar Knútur: Það geta ekki allir sungið um partýin

Söngvaskáldið Svavar Knútur heldur þrenna opinbera tónleika eina leynitónleika á ferð sinni um Austfirði um helgina. Hann er nýlagður af stað í hringferð um landið til að fylgja eftir nýjustu plötu sinni. Með henni lýkur hann fimmtán ára tímabili þar sem hann hefur í tónlist sinn fengist á við ýmsar birtingarmyndir sorgarinnar.

„Plöturnar Kvöldvaka, Ölduslóð, Brot og Ahoy! Side A og Side B mynda heildarverkið. Þetta eru söngvar um landfræðilega úttekt á víðum lendum sorgarferlisins, erfiða tíma og bjartari hliðar. Sorgin er ekki eintómur bömmer, í myrkrinu sér maður stundum ljósin skýrast. Það geta ekki allir sungið um partýin,“ segir Svavar Knútur.

Þessi 15 ár spanna líka nokkurn veginn þann tíma sem liðinn er síðan hann sagði upp dagvinnunni og gerðist tónlistarmaður. „Tónlistin tók yfir. Ég hafði sent frá mér nokkur lög og fólk vildi fá mig meira og meira til að spila. Loks hafði ég ekki lengur tíma fyrir vinnuna.“

Svavar Knútur fer reglulega í ferðir um landið en spilar að auki mikið erlendis. Hann spilaði í Þýskalandi í lok vetrar og fer aftur í haust en var í vor einnig í Ástralíu. „Ég hef eignast vini um allan heim og það hefur myndað samfélag sem hlakkar til að fá mig aftur. Ég er því ekki að hætta í tónlistinni, tónleikaferðirnar eru mín leið til að rækta þann garð.“

Hann fer að auki reglulega um Ísland. „Eftir að ég fór að spila meira erlendis hef ég minni áhyggjur af því hvort það mæta margir eða fáir á tónleikana mína hérlendis. Erlendu túrarnir gera mér kleift að sinna fólkinu mínu úti á landi.“

Svavar Knútur hóf hringferð sína á Siglufirði í gær, verður á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld, Randulfssjóhúsi á Eskifirði annað kvöld og í Djúpavogskirkju seinni part sunnudags. „Ég er síðan með leynitónleika á Hótel Stuðlagili á sunnudagskvöld. Þeir eru til heiðurs Eiríki (Skjaldarsyni) á Skjöldólfsstöðum og Villa (Vilhjálmi Vernharðssyni) í Möðrudal. Þeir drógu mig upp sitt hvorn daginn þegar ég fór út af í krapa árið 2022. Ég vildi því bjóða sveitinni á tónleika.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.