Sveitarfélagið á að örva atvinnustarfsemi

Forsvarsmenn sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs segja mikilvægt að örva atvinnustarfsemi í heimabyggð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fréttatilkynningu sem sveitarfélagið gaf út í dag vegna umfjöllunar fjölmiðla um byggingu grunnskóla á Egilsstöðum.

 

ImageAusturglugginn benti fyrstur fjölmiðla á að framkvæmdin hefði ekki farið í útboð. Lögfræðingur samtaka iðnaðarins sagði bygginguna útboðsskylda. Hann hefur síðan ritað þremur ráðuneytum bréf og farið fram á að málið verði skoðað ítarlega.

 

Í sem sveitarfélagið sendi frá sér í dag kemur fram að bygging skólans hafi verið undirbúin í tvö ár. Það hafi verið meðvituð ákvörðun að fresta þeim fram yfir stóriðjuframkvæmdir þótt þörfin hafi verið ljós. Sveitarfélagið hafi yfirtekið Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. (EFF) til að koma í veg fyrir tafir á byggingu skólans til að „viðhalda þeim krafti og uppbyggingu sem ríkir í samfélaginu. Það er hlutverk sveitarfélagsins að leita allra leiða til að örva atvinnustarfsemi innan þess. Sérstaklega þegar samdráttur á sér stað eins og nú virðist vera m.a. á byggingamarkaði og meðal iðnaðarmanna.  Það telur sveitarfélagið sig hafa gert í þessu máli á löglegan hátt.“

 

Gert áður

 

Sveitarfélagið leitaði samstarfs við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf( EFF) um bygginguna þar sem EFF hafi séð um sambærilegar framkvæmdir fyrir önnur sveitarfélög „á hagkvæman og árangursríkan hátt.“ Skólinn yrði síðan leigður sveitarfélaginu, eins og gert hefur verið við fleiri mannvirki á vegum sveitarfélaga.

EFF setti verkefnið í vetur inn í sérstakt félag, Fasteignafélag Fljótsdalshéraðs, sem samdi við Malarvinnsluna ehf. um að annast stýriverktöku og uppsetningu eininga..„Þar gat Malarvinnslan boðið upp á mjög góða og hagkvæma lausn.“

Í tilkynningunni er fullyrt að þeir grunnskólar sem EFF hefur áður byggt hafi reynst hagkvæmir án þess að það hafi komið niður á gæðum.

 

Óvæntar aðstæður

 

„Þegar samningum var lokið milli EFF og Malarvinnslunnar og framkvæmdir áttu að geta hafist kom í ljós að lánskjör voru ekki hagstæð á almennum markaði. Félagið hafði einnig verið í viðræðum við Lánasjóð sveitarfélaga um fjármögnun verkefnisins þar sem um 100% opinbera framkvæmd er að ræða. Lánasjóður sveitarfélaga gaf svo út í maí, þegar framkvæmdir voru að hefjast, að sjóðurinn myndi einungis lána til félaga í 100 % eigu sveitarfélaga. Eftir að hafa leitað sér lögfræðilegrar og viðskiptalegrar rágjafar var því ákveðið að Fljótsdalshérað keypti Fasteignafélag Fljótsdalshéraðs með öllum réttindum og skyldum af  Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf og gerði síðan þjónustusamning við EFF  til að ekki yrðu frekari tafir á byggingarframkvæmdum. Í þjónustusamningnum kemur fram að EFF mun hafa yfirumsjón með hönnun, þróun, öflun leyfa, framkvæmdastjórn og verkframkvæmdum vegna uppbyggingar húseignarinnar nr. 11 við Tjarnarlönd á Egilsstöðum, Egilsstaðaskóla, að höfðu samráði við stjórn Fasteignafélags Fljótsdalshéraðs. Í samningi á milli aðila er að loknum byggingaframkvæmdum síðan gert ráð fyrir því að EFF eigi kauprétt að Fasteignafélagi Fljótsdalshéraðs, sem á skólabygginguna, svo það er hagur allra aðila að sem hagkvæmast sé staðið að byggingarframkvæmdum.“

 

Fljótsdalshérað er hluthafi að EFF ásamt ellefu öðrum sveitarfélögum og þremur bankastofnunum. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, Soffía Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar og Jónína Rós Guðmundsdóttir, formaður bæjarráðs, rita undir tilkynninguna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.