Sýna gamlar myndir frá Eskifirði á afmælisdeginum

Myndir úr safni kvikmyndatökumannsins Þórarins Hávarðssonar verða sýndar á sunnudag á afmælisdegi Eskifjarðar í tilefni af bæjartíðinni Útsæðinu. Hátíðin hefst í dag.

Fyrsti viðburður hátíðarinnar að þessu sinni er myndlistarsýning Steinunnar Sigurðardóttur frá Eskifirði eða „Art SteinSig“ í Randulfssjóhúsi. Steinunn kallar sýninguna „Við sæinn.“ Sýningin opnar kl. 16:00 í dag og verður opin á opnunartíma hússins út ágúst.

Annað kvöld verður hið sívinsælda sundlaugardiskó auk þess sem tónlistarkonan Guðrún Árný verður með sing-a-long. Á laugardag er miðbæjarhátíð með leikjasvæði og síðan markaðsbásum, tónlistaratriðum og fleiru. Heimafólk verður þar í aðalhlutverki eins og á hátíðinni allri. „Hátíðin er með nokkuð hefðbundnu sniði,“ segir Kristinn Þór Jónasson, sem leiðir hana.

Á sunnudag er efnt til kaffisamsætis í Valhöll í tilefni af afmæli Eskifjarðar. Bærinn er einn þeirra sex sem fengu kaupstaðaréttindi þegar einokunarverslunin var lögð af þann 18. ágúst árið 1786 og er því 238 ára í ár. Haldið hefur verið upp á afmælið á Útsæðinu síðustu ár en nú ber svo vel til að sunnudagurinn hittir á afmælisdaginn.

Þar verður sýnt á stórum skjá úrval frétta- og manlífsmynda sem Þórarinn Hávarðsson tók á árunum 1983-2005 á Eskifirði og eitthvað úr nágrannabyggðum.

„Við höfum sýnt gamlar myndir í kaffiboðinu síðustu ár og það hefur tekist mjög vel til. Þórarinn er núna að klára að klippa saman 70 mínútna úrval sem við munum láta ganga á sunnudaginn og við eigum von á að það verði mjög flott. Þarna eru myndir frá 17. júní og sjómannadeginum í bland við viðtöl við fólk,“ segir Kristin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.