„Sýnum ungmennunum að framtíðarstörfin eru á Austurlandi“

Fyrsta starfamessa Austurlands, þar sem fyrirtæki kynna atvinnumöguleika til framtíðar fyrir nemendum í grunn- og framhaldsskólum, verður haldin á Egilsstöðum á morgun. Von er á yfir 400 nemendum og fulltrúum um 40 fyrirtækja.

„Þetta gengur út á að kynna störf og starfsgreinar í heimabyggð fyrir ungu fólki og sýna að framtíðartækifærin geta verið hér. Það er orðið þannig að ungmenni labba ekki beint inn í fyrirtæki og komast að því hvað hver gerir, heldur þarf að þekkja einhvern,“ segir Páll Baldursson, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Stofnunin heldur utan um messuna en Páll segir frumkvæðið hafa komið frá sveitarfélögum og skólum. Fyrirtækjum og stofnunum af Austurlandi hefur síðan boðið að taka þátt og kynna sig. Um 40 hafa þekkst boðið. „Þau eru misstór með mismarga fulltrúa. Við erum með til dæmis með byggingaiðnaðinn, stóru fyrirtækin og sveitarfélögin sjálf og þeirra stofnanir,“ segir Páll.

Starfamessan er sniðin að nemendum úr 9. og 10. bekk grunnskólanna og á fyrsta ári framhaldsskólanna. Hún er á skólatíma og skipulagðar hafa verið rútuferðir úr öðrum byggðarlögum. Þess vegna er von á um 400 ungmennum.

Frá klukkan 12:30-14:00 er starfamessan einnig opin almenningi. „Þetta er ekki atvinnulífssýning þar sem fyrirtækin eru að kynna sig og sína starfsemi heldur er fyrirtækið að kynna störf sem eru unnin þar. Það verður síðan spennandi að sjá hvernig tekst til,“ segir Páll að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.