Skip to main content

Þyrlan ferjar vistir fyrir hóp Ratcliffe

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. apr 2025 15:16Uppfært 04. apr 2025 15:17

Daglegar ferðir svartar þyrlu til og frá Egilsstaðaflugvelli hafa vakið athygli Héraðsbúa í síðustu viku. Skýringin liggur í fjallaferð á vegum Jim Ratcliffe.


Þyrlan er í eigu Ratcliffe og hefur á sumrin verið notuð til ferða milli Egilsstaðaflugvallar og Vopnafjarðar. Á miðvikudag komu tvær einkaþotur merktar félagi hans, Ineos, austur og síðan hefur þyrlan verið daglega á ferðinni.

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers verkefnisins, sem heldur utan um verkefni Ratcliffe um verndun villta laxins í ám á Norðausturlandi, segir að þyrlan hafi undanfarna daga verið að aðstoða hóp á vegum Ratcliffe sem sé í fjallaferð á Austurlandi.

Hópurinn hefur verið á ferðinni í kringum Kverkfjöll og Laugarfell og er þyrlan notuð til að ferja vistir og vera á annan hátt til taks fyrir hópinn. Fólkið heldur aftur af landi brott á morgun.

Fyrir utan uppbyggingu í tengslum við laxveiði á sumrin hafa talsmenn Six Rivers verkefnisins rætt um möguleikana á annars konar ferðamennsku, meðal annars fjallaferðum, hvort sem er að sumri eða vetri til.

Mynd: Unnar Erlingsson