Tökur á stuttmyndinni Snjóþunga að hefjast í Neskaupstað
Ungur bóndi í Norðfirði lendir í snjóflóði þegar síst varir og meðan hann situr fastur og hjálparlaus í snjónum fer hann að hugsa um fjölskyldu sína og lífið í stóru myndinni.
Gróflega þannig hljómar þema stuttmyndar Jónu Grétu Hilmarsdóttur sem tekin verður upp í Neskaupstað á allra næstu dögum og hápunkturinn í sjálfri Egilsbúð á sunnudaginn kemur. Um skólaverkefni Jónu Grétu er að ræða en sjálf segist hún himinlifandi yfir þeim góðu viðtökum sem verkefnið hefur hlotið austanlands með þátttöku fjölda sjálfboðaliða þó hún geri sér fullvel grein fyrir að umfjöllunarefni kvikmyndarinnar sé viðkvæmt mörgum á þeim slóðunum.
Stuttmyndin skartar ekki minni íslenskri stjörnu en sjálfum Þorvaldi Davíð Kristjánssyni sem mun leika bóndann unga sem fyrir snjóflóðinu verður á bóndabæ í Norðfirði. Það var líka Þorvaldur sjálfur sem átti hugmyndina að slíkri stuttmynd.
Því fleiri því betra í Egilsbúð
Lokaatriði myndarinnar verður tekið upp í Egilsbúð á sunnudag, sem líkt og í raunveruleikanum, sinnir hlutverki sem fjöldahjálparmiðstöð þegar Móðir náttúra lætur til sín taka.
„Við vorum rétt í þessu að fá staðfestingu á að við fáum Egilsbúð til að taka upp lokaatriðin og þó viðbrögð við köllum eftir fólki sem vill taka þátt sem aukaleikarar hafi verið frábær væri gaman að sjá Egilsbúð troðfulla af fólki á sunnudaginn kemur,“ segir leikstjórinn Jóna Gréta.
„Við byrjum að taka á föstudaginn kemur og ég hef sjálf verið að bíða eftir að eitthvað miður gott komi upp á, sem er venjan í þessum bransa, en ekkert ennþá svo við vonum að það haldist áfram. Það gekk ótrúlega vel að fá heimafólk til að leggja okkur lið í þessu og það er mín reynsla að ef maður er úti á landi þá eru nánast allir tilbúnir að leggja verkefnum lið ólíkt því sem gerist kannski annars staðar. Okkur var bókstaflega tekið opnum örmum.“
Viðkvæmt en mikilvægt
Jóna Gréta gerir sér fulla grein fyrir að viðfangsefni myndarinnar getur sannarlega verið viðkvæmt á stað eins og Neskaupstað og að allir aðstandendur séu meðvitaður um þá stöðu.
„Myndin er að langstærstu leyti tekin upp austanlands og ég einmitt pínu súr með hvað lítill snjór er núna austanlands en lokafrágangur verður í stúdíói í Gufunesi í Reykjavík. En við viljum síst af öllu opna einhver sár hjá heimafólki og erum að vanda okkur mjög mikið til að svo verði ekki.“
Tíminn er naumur til að láta allt ganga upp að sögn Jónu.
„Tökurnar verða að ganga vel því þetta er útskrifarverkefni hjá bæði mér og Konráði Kárasyni, sem á ættir að rekja til Neskaupstaðar, en stefnan er að frumsýna myndina í lok maí í Bíó Paradís í Reykjavik.“