Ótvíræður kæruréttur
Fjármálaráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Samtök iðnaðarins hafi „ótvíræðan kærurétt“ vegna nýbyggingar Grunnskólans á Egilsstöðum. Samið var við Malarvinnsluna og framkvæmdir hafnar án útboðs.
Í kjölfar umfjöllunar Austurgluggans um málið í lok júní fóru samtökin fram á að fjármálaráðuneytið óskaði eftir áliti kærunefndar útboðsmála á verklagi við byggingu skólans. Ráðuneytið úrskurðaði í seinustu viku. Þar segir að án þess það vilji taka afstöðu til þessa tiltekna máls á þessu stigi verði ekki annað séð en þeir aðilar sem telji að innkaup sveitarfélagsins séu ekki í samræmi við lög eigi ótvíræðan kærurétt til kærunefndar útboðsmál „enda hafi þeir lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.“ Ráðuneytið nýtir ekki heimild sína til að skjóta málinu beint til kærunefndarinnar en bendir samtökunum á að þeim sé heimilt að framselja kæruheimild sína til félags eða samtaka sem gæta hagsmuna þess.
Í niðurlagi úrskurðarins er tekið fram að ráðuneytinu sé kunnugt um ýmis álitaefni sem upp hafi komið í tengslum við samstarf opinberra aðila og einkaaðila um lausn verkefna hins opinbera sem snúi að reglum um opinber innkaup. Því hefur ráðuneytið hafið almenna athugun á ýmsum álitaefnum sem upp hafa komið og snúa að lagaumhverfi innkaupamála hins opinbera.
Málið verður tekið fyrir á bæjarráðsfundi í dag.